Hlutafjárútboði Mosaic Fashions til fagfjárfesta er lokið og allt hlutaféð er selt. Samtals óskuðu fagfjárfestar eftir að kaupa rúmlega fjórfalt fleiri hluti en í boði voru. Söluverð hlutanna nemur 3,7 milljörðum króna, en um er að ræða nýja hluti sem seldir voru á genginu 13,6. Hlutafjárútboðið er liður í undirbúningi að skráningu Mosaic Fashions í Kauphöll Íslands segir í tilkynningu frá Kaupþing banka.

Mosaic Fashions hf. er eigandi nokkurra helstu vörumerkja á sviði kvenfatnaðar í Bretlandi, Oasis, Karen Millen, Coast og Whistles. Í júní áformar félagið að selja hlutafé til almennings á sama verði og hlutafé var selt til fagfjárfesta. Umsjón með hlutafjárútboðinu til almennings verður í höndum Fyrirtækjaráðgjafar Kaupþings banka hf., sem einnig sá um hlutafjárútboðið til fagfjárfesta.

Vegna útboðs til fagfjárfesta ákvað stjórn Mosaic Fashions hf. í dag, þann 19. maí 2005, að hækka hlutafé félagsins um 272.469.284 hluti og gefa út til þeirra sem skráðu sig í útboðinu. Þessir hlutir munu nema tæplega 10% af heildarhlutafé félagsins eftir hækkunina. Veita nýir hlutir eigendum þeirra sama rétt og aðrir hlutir í félaginu frá þeim degi er hlutirnir verða gefnir út, sem fyrirhugað er að verði í næstu viku.

Almennt hlutafjárútboð Mosaic Fashions hf. er áformað 6.-10. júní næstkomandi og útgáfa útboðs- og skráningarlýsingar þann 31. maí næstkomandi en fyrir maílok er fyrirhugað að sækja um skráningu á hlutafé félagsins í Kauphöll Íslands.