Í sölum Laugardalshallarinnar geta spilarar, eða öllu heldur samfélagsþegnar, tölvuleiksins EVE Online kynnt sér hagkerfi, lagabreytingar og og aðra þætti EVE heimsins. „Þetta er nokkurs konar samblanda þjóðfundar, stjórnlagaþings, Alþingis og útihátíðar,“ segir Hilmar Veigar Pétursson, forstjóri CCP, í samtali við Viðskiptablaðið. Blaðamaður ræddi við Hilmar innan um hundruði Eve-ara sem þræða nú gjörbreytta Laugardalshöll og kynna sér EVE og framtíð samfélagsins.

Um 1200 erlendir gestir sækja EVE Fanfest CCP um helgina. Gestirnir koma frá öllum heimshornum og eru þeir sem lengst ferðuðust frá Ástralíu. Helsta deilumál milli tveggja EVE-Ástrala hefur verið hvor hafi komið lengra frá. „Annar kom frá Melbourne en hinn þurfti að keyra sjö klukkutíma til Melbourne áður en hann flaug hingað,“ segir Hilmar Veigar. Hann segir að margir sem hingað koma vegna hátíðarinnar dvelji í lengri tíma en hátíðin stendur yfir og mátti sjá strax um síðustu helgi að hátíðin var handan við hornið. Talið er að hún skili um 300 milljónum í formi gjaldeyristekna.

Stanslaus þróun

Hápunktur hátíðarinnar er á laugardaginn, þegar fer fram tveggja tíma kynning á framtíð EVE Online. Um kvöldið verður síðan slegið upp veislu í Höllinni.

Hilmar segir að búast megi við tíðindum frá kynningunni á laugardag. Líkt og venjan er ríkir nokkur leynd yfir hvað verður kynnt utan þeirra breytinga sem EVE-arar kynna sér nú í Höllinni. „Þær hafa ef til vill ekki jafn mikla þýðingu fyrir fólk sem þekkir ekki leikinn. Þetta er ekki ólíkt því að lagabreytingar sem gerðir eru á Alþingis vekja ekki mikinn áhuga hjá öðrum en Íslendingum, nema kannski Icesave,“ segir hann.

Sem dæmi nefnir hann að meðal nýjunga sem kynntar verða á laugardaginn er það sem kallað er Incarna , og gerir spilurum kleift að ganga um heim EVE sem karakterar. „Nú getur leikmaður verið manneskja í fullri stærð.“ Hilmar segir að um sé að ræða stórar breytingar og eru meðal annars kynntar í hliðarherbergjum Laugardalshallar um helgina.

CCP vinnur í dag að tveimur nýjum tölvuleikjum sem tengjast EVE samfélaginu. Aðspurður segir Hilmar að nærri öllum tekjum CCP sé eytt í áframhaldandi vöruþróun. „Það er forsenda þess að við getum vaxið. Á sama tíma höfum við verið að byggja kjarnatæknigrunn sem við erum að vinna tvo leiki ofan á.“