Viðskiptabankarnir og Íbúðalánasjóður eiga samanlagt tæplega 2200 fasteignir sem þeir hafa leyst til sín á liðnum tveimur árum. Flestar eignanna voru yfirteknar á árinu 2010. Þá voru 1650 fasteignir teknar yfir. Fréttastofa RÚV greinir frá í dag.

Kemur fram að um helmingur fasteignanna, alls 1122, eru í eigu Íbúðalánasjóðs. Þær voru ýmist í eigu einstaklinga eða verktaka. Af fasteignum sem voru í eigu hinna síðarnefndu eru sumar enn í byggingu og aðrar fullkláraðar en hafa staðið auðar.

Landsbankinn á flestar fasteignir af viðskiptabönkunum, alls 535. 181 er íbúðarhúsnæði, 148 eru iðnaðar- eða skrifstofuhúsnæði og einnig eru sumarbústaðir, jarðir og lóðir í eigu bankans, að því er fram kemur í frétt RÚV.

Arion banki á 193 fasteignir en af þeim eru 99 íbúðarhúsnæði. Þá á Íslandsbanki 299 fasteignir, 168 íbúiðir og 51 atvinnuhúsnæði, auk sumarbústaða, hesthúsa, landa og lóða. Samanlagt eiga viðskiptabankarnir 1027 fasteignir.

Lífeyirssjóðirnir hafa tekið yfir mun færri fasteignir en bankarnir og Íbúðalánasjóður, eða alls 35.