Að sögn Jóns Sigurðssonar, formanns íslensku lánaviðræðunefndarinnar, hefur ekki verið ákveðið endanlega hve stórt lán kemur frá Rússum. Þeir gáfu fyrirheit um 500 milljónir Bandaríkjadala í óformlegum viðtölum í nóvember síðastliðnum og það er það sem Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hefur reiknað með en hann er þátttakandi að málinu.

,,Þessir tvíhliða lánssamningar eru ekki eingöngu mikilvægir sem stuðningur við Ísland heldur er þetta líka þátttaka í starfi Alþjóðagjaldeyrissjóðsins; að auka við hið fjölþjóðlega lánsfjármagn hans, tvíhliðalánsfé til að styðja áætlanir sem sjóðurinn hefur komið upp í samstarfi við lántökuríkin. Þetta er sjónarmið sem skiptir máli fyrir öll þau sjö eða átta lönd sem við höfum talað við. Það er ástæða til þess að hafa það líka í huga að frá hagsmunagæslusjónarmiði er þetta eina röksemdin sem hefur gildi hvað Rússa varðar.“

Jón sagði að þó að upphæðin væri ekki há á mælikvarða fjárlaga Rússlands þá væru þetta talsverðir fjármunir, sérstaklega þar sem efnahagsaðstæður þeirra væru erfiðari en þegar fyrirheitin voru gefin.

Að sögn Jóns eiga Rússar heimboð til Íslands vegna næsta viðræðufundar en hann sagðist hafa upplýsingar um að stefnumarkandi ákvörðun verði tekin hjá þeim um miðjan september. ,,Hvað það þýðir ætla ég ekki að geta mér til um,“ sagði Jón. Það boð hefur staðið frá því hann hitti Dimitri Pankin, aðstoðarfjármálráðherra Rússa, 9. og 10. júní sl. í Moskvu.