*

föstudagur, 18. október 2019
Innlent 4. júlí 2017 09:41

Rútufyrirtækin þurfa að hagræða

Framkvæmdastjórar Kynnisferða og Gray Line segja að það sé útlit fyrir talsverða hagræðingu hjá rútufyrirtækum.

Ritstjórn
Haraldur Guðjónsson

Framkvæmdastjórar Kynnisferða og Gray Line segja að það sé útlit fyrir talsverða hagræðingu hjá rútufyrirtækum. Kristján Daníelsson, framkvæmdastjóri Kynnisferða, bendir til að mynda á að verð séu farin að lækka skyndilega. Hann segir að það verði miklar hræringar fram á haust og að næsta vetur muni einhver hagræðing eiga sér stað að því er kemur fram í umfjöllun Fréttablaðsins á áhrifum styrkingar krónunnar á rútufyrirtæki á Íslandi. 

Haft er eftir Ásgeiri Jónssyni deildarforseta Hagfræðideildar Háskóla Íslands: „Þegar hægist á vextinum þarf að eiga sér stað hagræðing og vegna hærra gengis krónunnar finnst mér við einmitt vera á þeim tímapunkti þar sem það er að byrja að gerast.“ Hann segir að hærra gengi virðist vera að hægja á vexti ferðaþjónustunnar. 

Þórdís Lóa Þórhallsdóttir, forstjóri Gray Line á Íslandi, segir að ef krónan verður áfram jafn sterk mun kauphegðun ferðamanna breytast. „Það er verðstríð í gangi á þessum helstu ferðamannaseglum og það gengur ekki upp en ég er sannfærð um að það verði mun meiri samþjöppun í ferðaþjónustunni og að það sé nú mjög erfið afkoma hjá mörgum,“ segir hún.