*

sunnudagur, 16. júní 2019
Innlent 17. mars 2019 15:07

Rútufyrirtæki í þungum rekstri

Þrátt fyrir gríðarlega fjölgun ferðamanna hefur rekstur rútufyrirtækja gengið illa síðastliðin tvö ár.

Kristján Torfi Einarsson
Svört starfsemi hefur blómstrað í rútubransanum undanfarin ár og víða má sjá óskráðar rútur flytja ferðamenn á þjóðvegum landsins.
Haraldur Guðjónsson

 

Þvert á það sem flestir halda þá hefur rekstur rútufyrirtækja gengið erfiðlega síðastliðin tvö ár. Árið 2017 nam tap á rekstri Kynnisferða (Reykjavík Excursions) 314 milljónum króna, en félagið er langstærsta rútufyrirtæki landsins með tekjur upp á 8,1 milljarð króna það ár. Næststærst er fyrirtækið Allrahanda GL, sem velti ríflega fjórum milljörðum króna, en skilaði tæplega 200 milljóna króna tapi.

 Ársreikningar fyrir árið 2018 liggja ekki fyrir en samkvæmt upplýsingum Viðskiptablaðsins reikna greinendur með að reksturinn hafi þyngst enn frekar á síðasta ári. Sér í lagi hjá stærstu félögunum sem keppa á markaði með dagsferðir og styttri ferðir í nágrenni höfuðborgarinnar þar sem samkeppnin er hörðust. Til marks um slæmar afkomuvæntingar færðu lífeyrissjóðirnir, sem eru langstærstu fjárfestarnir í greininni, eignarhluti sína í rútufélögum niður um hundruð milljóna króna á síðasta ári. Sömuleiðis eru gjaldþrot Prime Tours og uppsagnir 32 starfsmanna Allrahanda síðasta haust frekari vísbendingar um að rekstrarskilyrðin hafi versnað.

„Staðan er ekki góð,“ segir Haraldur Teitsson, formaður Félags Hópferðaleyfishafa og framkvæmdastjóri Teits Jónssonar ehf.. „Ferðamönnum er að fækka. Það er staðreynd þótt enn sé óvíst hvað samdrátturinn verður mikill. Að samanlögðu er greinin illa í stakk búin til að mæta miklum launahækkunum og fyrirhuguð verkföll eru síst til þess fallin að bæta stöðuna. Nú þegar hafa menn gripið til uppsagna og ég veit að uppsagnir eru fyrirhugaðar hjá nokkrum aðildarfélögum okkar. En ég óttast mest að ef menn ná ekki fljótlega saman um skynsamlega lausn þá verði hópuppsagnir óumflýjanlegar í greininni.“

Tiltaka má ýmsar ástæður til að skýra erfiðleika rútufyrirtækja síðustu tvö rekstrarár. Styrking krónunnar dró úr kaupmætti ferðamanna, olíuverð var hátt og fjármagn dýrt á sama tíma og fjárfestingaþörfin var mikil. Þá var samkeppnin gríðarlega hörð en samkvæmt Samgöngustofu eru um 655 aðilar með rekstrarleyfi til fólksflutninga hér á landi. Það sem hefur þó riðið baggamun síðustu misseri er að til viðbótar við harða samkeppni milli skráðra félaga með rekstrarleyfi þá hefur svört starfsemi vaxið jafnt og þétt.  

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér

Stikkorð: rútur verkföll svört starfsemi
25 ára afmælistilboð VB – 50% afsláttur af áskrift

Afmælistilboð VB

Viðskiptablaðið er 25 ára og af því tilefni býðst nýjum áskrifendum að kaupa áskrift á 50% afslætti.
Afmælisverðið er aðeins 2.500 krónur.

Tilboðið er fyrir nýja áskrifendur. Núverandi áskrifendur geta bætt við sig áskrift á þessu verði. Gildir í 4 mánuði. Áskrifendur fá Viðskiptablaðið, Frjálsa verslun og Fiskifréttir sent ásamt vefaðgangi að vb.is og fiskifrettir.is