Tekjur af sölu lóða í kringum útvarpshúsið urðu til þess að Ríkisútvarpið ohf. (RÚV) gat endurfjármagnað eldri lán og þar með staðið undir afborgunum af lánum frá því áður en rekstrarform þess breyttist. Hefði ekki komið til sölunnar hefði félagið orðið ógreiðslufært. Óánægju gætir innan Ráðhúss Reykjavíkur með umfjöllun ríkisendurskoðanda um þátt borgarinnar í gjörningnum.

Ríkisendurskoðandi skilaði í liðinni viku skýrslu um rekstur og aðgreiningu rekstrarþátta RÚV. Skýrslan var unnin að beiðni mennta- og menningarmálaráðuneytisins (MRN) en ráðuneytið fór fram á að kannað yrði hvort nægur aðskilnaður væri milli samkeppnisrekstrar og almannaþjónustu útvarpsins. Ríkisendurskoðandi ákvað hins vegar að taka einnig til skoðunar hvort rekstur RÚV væri sjálfbær og hvort starfsemi RÚV væri í samræmi við lög sem gilda um hlutafélagið.

Í sérstökum kafla í skýrslunni er fjallað um sölu RÚV á lóðum við Efstaleiti 1 á árinu 2015 og vakið máls á því að óljóst sé hvort samþykki borgarinnar hafi legið fyrir er lóðinni var skipt upp milli ríkis og Ríkisútvarps. Er til lóðasölunnar kom er bent á að RÚV hafi ekki verið gert að greiða „stofnkostnað innviða“ líkt og tíðkast hefur. Heildarsöluverð lóðarinnar nam tæpum tveimur milljörðum en kostnaður RÚV við að gera hana byggingarhæfa nam 495 milljónum. Tæplega 1,5 milljarðar nýttust því til niðurgreiðslu skulda.

Stofnkostnaður innviða hefur í daglegu tali verið nefndur innviðagjöld en verktakafyrirtæki hafa stefnt borginni og krafist endurgjalda á þeim þar sem um ólögmæta skattlagningu sé að ræða. Borgin hefur á móti byggt á því að innheimta þess byggist á einkaréttarlegu samkomulagi og því ekki um skattlagningu að ræða.

„[Athygli vekur] hversu lítill hluti afraksturs þessa samnings kom í hlut borgarinnar. Ríkisendurskoðandi leggur ekki mat á það hvort hér sé í reynd um opinbera aðstoð að ræða. Þó er víst að bæði ríki og borg framseldu umtalsverð verðmæti til ógjaldfærs opinbers hlutafélags til að hægt yrði að lækka skuldir þess,“ segir í skýrslu ríkisendurskoðanda.

Enginn afsláttur veittur að sögn borgarinnar

Nokkurrar óánægju gætir innan Ráðhúss Reykjavíkur með þessa framsetningu í skýrslunni en það staðfestir Dagur B. Eggertsson borgarstjóri í svari við fyrirspurn blaðsins. Því fari fjarri að um gjafagerning til RÚV, sem einkaaðilum standi ekki til boða, hafi verið að ræða og út á það sett að umræddur texti hafi endað í skýrslunni án þess að borginni væri gefinn kostur á að bera hönd fyrir höfuð sér.

„Í skipulagi fyrir RÚV reit eru byggingarreitir innan stórra óskiptra lóða. Allur innviðakostnaður innan lóða féll á RÚV og varð hann alls 495 milljónir króna samkvæmt skýrslu Ríkisendurskoðunar. Þátttaka í innviðakostnaði utan lóða var greiddur með hefðbundnu gatnagerðargjaldi sem var 523 milljónir króna í tilviki þessarar uppbyggingar. Að auki fékk Reykjavíkurborg í sinn hlut hluta byggingarréttarins sem varð til í nýju skipulagi,“ segir Dagur. Því hafi ekki verið um eftirgjöf til RÚV að ræða.

Í samningsmarkmiðum borgarinnar frá 2014, sem voru í gildi er samningurinn var gerður, segir að stofnkostnaður innviða skuli greiddur með fjármunum sem af uppbyggingu fást. Á þessu ári var markmiðunum breytt og texta bætt við um að slíkar greiðslur geti verið „mismunandi eftir staðsetningu og svæðum“. Að mati borgarstjóra rúmaðist samningurinn við RÚV innan markmiðanna. RÚV hafi afhent borginni hluta lóðarinnar árið 1995 endurgjaldslaust og þá gert samkomulag um að borgin ætti ekki kröfu á að fá aðra hluta lóðarinnar til sín. „Þótt alltaf geti verið erfitt að bera saman samninga má þvert á móti segja að framlag RÚV með þessum samanlögðu samningum hafi verið meira en annarra samningsaðila borgarinnar,“ segir Dagur.

„Fyrst ber að taka það skýrt fram að athugun Ríkisendurskoðunar beindist að engu leyti að Reykjavíkurborg. Umfjöllunarefnið var hvernig fjárhagsleg staða [RÚV] væri og hvernig það fjármagnaði reksturinn sinn með lóðasölu,“ segir Skúli Eggert Þórðarson ríkisendurskoðandi í svari við fyrirspurn blaðsins. „Það kann vel að vera að stjórnendur Reykjavíkurborg hafi viljað að komið hefði skýrar fram í umfjöllun Ríkisendurskoðunar að þetta mál á sínum tíma hafi ekki einungis verið fjárhagslegs eðlis heldur var einnig pólitískur ávinningur borgarinnar af lóðasölunni og þar með því að fá uppbyggingu á þessum reit. Fyrir stefnu borgarinnar um þéttingu byggðar hefur þetta áreiðanlega skipt miklu.“

N ánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .