Írska lággjaldaflugfélagið Ryanair hefur greint frá því að það hyggist innheimta sem svarar tveimur pundum af farþegum sínum við innritunarborðið. Að því er kemur fram í breska blaðinu Guardian er þetta til að lækka kostnað hjá félaginu.

Talsmenn flugfélagsins neita að með þessu séu þeir að hækka fargjöldin en ætlunin er að innheimta 2 pund við innritunarborðið. Það kemur til viðbótar við 5 punda gjald fyrir farangur sem félagið hóf að innheimta nýlega. Gert er ráð fyrir að þessi nýjasta gjaldtaka komi til framkvæmda 20. september næstkomandi að því er kemur fram í Guardian.

Um leið og greint var frá þessu sagði talsmaður Ryanair að þeir sem tékkuðu sig inn á netinu og væru aðeins með eina tösku í handfarangri myndu sleppa við gjaldtöku.