Stjórnvöld hefðu getað lagt sig fram um að semja betur við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn (IMF) þegar leitar var á náðir sjóðsins í haust.

Þetta kom fram í máli forsvarsmanna Samtaka atvinnulífsins (SA), þeirra Þórs Sigfússonar, formanns SA og Vilhjálms Egilssonar, framkvæmdastjóra SA þegar þeir kynntu nýja atvinnustefnu samtakanna í gær.

Báðir voru þeir sammála um að stýrivextir hér á landi væru bagalegir fyrir íslensk fyrirtæki. Aðspurðir um kröfu IMF um háa stýrivexti sögðu þeir að stjórnvöld hefðu getað samið mun betur við sjóðinn.

Þeir sögðu að semja mætti betur um tvenn atriði, stýrivextina og gjaldeyrishöftin sem nú séu að valda því að erlendir fjárfestar treysti ekki á að flytja fjármagn inn í landið.

Þór sagði að Íslendingar væru vel menntaðir og ekkert því til fyrirstöðu að útskýra stöðuna fyrir samninganefnd IMF. Hann sagði það liggja í augum uppi að ekki gangi til lengdar að hafa stýrivexti eins háa og þeir eru nú.

Þá greindu þeir frá því að vaxandi áhugi væri á meðal erlenda fjárfesta hér á landi um þessar mundir. Þór sagði að þegar bankarnir hefðu hrunið í byrjun október hefðu svokallaðir hákarlar verið áberandi í þeim tilgangi að eignast félög og eignir á ódýru verði en lítið hefði orðið úr því.

Nú þegar rykið væri að einhverju leit sest hefðu erlendir fjárfestar þó sýnt mikinn áhuga á því að fjárfeta hér á landi, sem bæði Þór og Vilhjálmur fögnuðu.

Þeir sögðu báðir mikilvægt að gefa erlendum fjárfestum tækifæri á að fjárfesta hér á landi. Þannig væri mikilvægt að afnema öll gjaldeyrishöft. Vilhjálmur ítrekaði að fjárfestar hefðu áhuga en þegar viðræður væru komnar af stað settu gjaldeyrishöftin skorðu í reikninginn.