Lítið var eftir af bjartsýni þeirri sem einkenndi málflutning Anders Borg, fjármálaráðherra Svíþjóðar, fyrr á þessu ári þegar hann kynnti haustfjárlög sænsku ríkisstjórnarinnar fyrr í dag. Ríkisstjórnin hyggst leggja um helming þeirra 15 milljarða sænskra króna sem hún hafði aflögu í örvun hagkerfisins, m.a. með því að byggja upp vega- og járnbrautakerfi landsins, hækka húsleigubætur einstæðra foreldra og lækka virðisaukaskatt á veitingastöðum og í veisluþjónustu.

Síðastnefnda aðgerðin hefur hlotið mikla gagnrýni í Svíþjóð enda þykir ekki einsýnt að hún muni skila mikilli örvun í hagkerfinu þegar að kreppir. Hér er hins vegar um að ræða eitt af þeim málum sem ríkisstjórnin lagði hvað mesta áherslu á í kosningabaráttunni fyrir ári síðan og því hefur það verið Borg og félögum mikið kappsmál að koma því í gegn.

Borg segir sænska hagkerfið mjög berskjaldað fyrir alþjóðlegri kreppu, bæði vegna þess hversu háð landið er útflutningi en einnig hve sænskir bankar eru háðir erlendri fjármögnun. Fari svo að Grikkland verði gjaldþrota stendur Evrópa frammi fyrir bankakreppu, að sögn Borg, og þá eru sænskir bankar í vondum málum.

Ekki er langt síðan Borg spáði 4,6% hagvexti í Svíþjóð á þessu ári, það var þegar fyrstu tillögum að fjárlögunum var skilað nú í vor, en sú spá hefur nú verið leiðrétt í 4,1% og á næsta ári spáir fjármálaráðherrann 1,3% hagvexti.