Samtök ferðaþjónustunnar skora á ríkisstjórn Íslands að beita sér fyrir því að fallið verði frá eða frestað gildistöku gistináttaskatts þar til raunhæfari lausn finnst.

Þetta kemur fram í ályktun sem stjórn samtakanna samþykkti í dag. Þar kemur fram að skattstofninn sé óljós og stangist á við grundvallarreglur skattalaga.

„Hann mun í besta falli ráðast af skilvísi gagna einstaklinga og fyrirtækja til Hagstofunnar, gagna sem fram að þessu hafa skilað sér misvel og víða illa. Í umsögn samtakanna um upphaflegt frumvarp var lögð áhersla á að innheimta skattsins yrði einföld m.a. þannig að um gjald pr. gistinótt yrði að ræða. Innheimtan er ekki lengur einföld og ljóst að skatturinn mun ýta undir svarta atvinnustarfsemi í greininni,“ segir í ályktuninni.

Þá segja samtökin að breytingar Alþingis á upphaflegu frumvarpi samræmast ekki samkeppnisreglum þar sem þær fela í sér mismunun samkeppnisaðila og brjóta þannig beinlínis gegn jafnræðisreglum.

Þá sé ein þeirra fjölmörgu breytinga sem gerðar voru á upphaflegu frumvarpi að undanskilja farþega skemmtiferðaskipa skattskyldu. Þeir ferðast um landið en gista í skipunum og greiða því ekki gistináttaskatt.

„Aðdragandinn að gistináttaskatti er langur. Samtök ferðaþjónustunnar hafa lagt á sig ómælda vinnu við að leiðbeina stjórnvöldum um með hvaða hætti sátt gæti náðst en það stendur fátt eftir af tillögum samtakanna og má nefna sem dæmi að stór hluti fjárins gengur ekki til Framkvæmdasjóðs ferðamannastaða eins og um var rætt í upphafi og hluta gjaldenda í samkeppnisrekstri hefur verið veitt aflausn,“ segir í ályktuninni.