Saga Capital fjárfestingabanki hefur sótt um viðskiptabankaleyfi til Fjármálaeftirlitsins og býður málið nú afgreiðslu hjá eftirlitinu.

Að sögn Þorvalds Lúðvíks Sigurjónssonar, forstjóra Saga Capital stefnir bankinn ekki að því að hefja viðskipti á einstaklingsmarkaði heldur er sótt um leyfið til að þjónusta betur núverandi viðskiptavini bankans sem eru helst sveitafélög, stofnanir og fyrirtæki.

„Við teljum að einstaklingsbankamarkaðnum sé mjög vel sinn hér á landi, til að mynda af ríkisbönkunum og sparisjóðum og sjáum ekki fyrir okkur að fara inn á þann markað,“ segir Þorvaldur Lúðvík í samtali við Viðskiptablaðið.

Þorvaldur segir að í raun hafi bankinn ekki þörf fyrir viðskiptabankaleyfi en vegna yfirlýstrar ríkisábyrgðar á innlánum auðveldi það rekstur bankans þar sem þeim fjármálastofnunum sem ekki hafa viðskiptabankaleyfi getur reynst erfitt að fjármagna sig.

„Við sjáum bankann fyrir okkur sem fyrirtækja- og stofnanabanka,“ segir Þorvaldur Lúðvík.

„Með þessu getum við þjónustað okkar viðskiptavini betur, meðal annars með auknum lánveitingum.“

Í nýlegri könnun á vegum Capacent Gallup er spurt um viðhorf einstaklinga til bankans, þ.e. hversu jákvæðir eða neikvæðir einstaklingar eru gagnvart Saga Capital.

Þá er einnig spurt:

„Ef Saga Capital væri viðskiptabanki á einstaklingsmarkaði og byði upp á sambærilega þjónustuþætti til einstaklinga og aðrir viðskiptabankar, hversu líklegt eða ólíklegt er að hann kæmi til greina sem þinn aðalviðskiptabanki?“

Þorvaldur Lúðvík segir að með þessari könnun sé aðeins verið að kanna markaðsstöðu bankans. Nýlegar rannsóknir hafi sýnt að um 70% þátttakenda í skoðanakönnunum sjá ekki fyrir sér að skipta um viðskiptabanka á næstu mánuðum en þegar einstaklingar hafi verið spurðir út í Saga Capital hefðu 40% þátttakenda sýnt áhuga á að stunda viðskipti við bankann. Hann ítrekar þó að Saga Capital hafi engin plön um að fara inn á einstaklingsbankamarkaðinn.