Saga Capital Fjárfestingarbanki opnar í dag Saga Market en það er vettvangur þar sem nálgast má á aðgengilegan hátt upplýsingar um viðskipti og tilboð með hluti í Saga Capital og stofnbréf sparisjóða. Þessir fjármálagerningar hafa ekki verið skráðir á skipulegum verðbréfamarkaði og er Saga Market því eingöngu
ætlaður fagfjárfestum segir í tilkynningu félagsins.


Á Saga Market geta fagfjárfestar og stofnfjáreigendur óskað eftir því að Saga Capital hafi milligöngu um að setja fram kaup- og sölutilboð fyrir þeirra hönd í hlutabréf í Saga Capital og stofnfjárbréf sem Saga Capital miðlar, enda uppfylli þeir þau lágmarksviðmið sem Saga Capital hefur sett um viðskipti með óskráð verðbréf.


Fyrstu viðskipti hafa þegar átt sér stað, en það voru viðskipti með stofnfjárbréf Sparisjóðs Norðlendinga. Að sögn Ómars Sigtryggssonar, framkvæmdastjóra Markaðsviðskipta Saga Capital, vill bankinn með þessu móti koma til móts við þarfir viðskiptavina sinna og auka gagnsæi stofnfjárbréfa og hluta í Saga Capital. Það hafi sýnt sig á undanförnum misserum að fjárfestar eru farnir að líta á stofnfjárhluti sem álitlegan fjárfestingarkost, en skort hafi verulega á sýn þeirra á veltutölur, framboð og eftirspurn. Það er því eðlilegt að fagaðilar aðstoði stofnfjáreigendur og aðra fjárfesta við að finna leiðir til að bæta verðmyndun stofnfjárbréfa segir í tilkynningu.


Til að fá heimild til að setja fram tilboð á hinum nýja vettvangi þurfa aðilar að uppfylla strangar kröfur. Kröfur þessar eru gerðar þar sem fjárfesting í óskráðum fjármálagerningum með takmarkaðar upplýsingar um rekstur og eignir ásamt óvissri verðmyndun, er ávallt hættumeiri en viðskipti með skráð verðbréf.