Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra frábiður sér umræðu um að ríkisstjórnin sé að kasta frá sér skattstofnum. Þetta sagði Bjarni þegar hann mælti fyrir fjárlagafrumvarpinu á Alþingi í morgun.

Hann nefndi gagnrýni vegan veiðileyfagjaldsins sérstaklega. „Hér er rétt að taka fram að þegar ný ríkisstjórn tók við voru lög um innheimtu veiðileyfagjaldsins ekki framkvæmanleg,“ segir Bjarni. Fyrrverandi ríkisstjórn hafi ekki verið reiðubúin til að útfæra lög um hærri skattheimtu á sjávarútveginn. „Fyrri ríkisstjórn innheimti aldrei þessi háu gjöld af útgerðinni sem hún segir nú að ný ríkisstjórn eigi að gera,“ sagði Bjarni. Það væri því holur hljómur í gagnrýni stjórnarandstöðunnar þegar kemur að auðlindagjaldinu.

Þá nefndi Bjarni til sögunnar bankaskattinn „sem fyrri ríkisstjórn virðist ekki hafa þorað að leggja á fjármálastofnanir í slitameðferð,“ eins og ráðherrann orðaði það. Þá sagði Bjarni að fyrrverandi fjármálaráðherra Samfylkingarinnar hafi lýst því yfir að hún vildi ekki sjá auðlegðarskattinn áfram.

Þá ræddi Bjarni gjaldtöku á Landspítalanum af legusjúklingum. Bjarni sagði að það væri aldrei ánægjuefni að leggja á gjöld fyrir heilbrigðisþjónustu. En sú gjaldtaka sem lögð sé til í fjárlagafrumvarpinu sé raunhæf. Bjarni sagði að sambærileg gjöld væru lögð á í öðrum ríkjum og nefndi hann meðal annars Svíþjóð sem dæmi. Þar væru innheimt matargjöld.