Þrýstingurinn eykst á stjórnvöld í Austurríki vegna þess hve lengi þau voru að bregðast við að loka skíðasvæðinu Ischgl í landinu. Þau eru sökuð um að hafa hunsað viðvarnir íslenskra heilbrigðisyfirvalda.

Heilbrigðisyfirvöldum í austurríki barst tölvupóstur frá íslenskum starfsbræðrum þeirra þann 4. mars þar sem kom fram að fjórtán manns hefðu greinst með kórónuveiruna á Íslandi eftir að hafa dvalið í Ischgl í lok febrúar að því er Bloomberg greinir frá. Skíðasvæðinu var ekki lokað fyrr en níu dögum síðar. Meðal upplýsinga sem send voru til Austurríkis voru nöfn þeirra hótela sem þau smituðu gistu á.

Saksóknarar rannsakar hvort ákæra eigi yfirvöld fyrir glæpsamlegt gáleysi. Verið er að skoða hvort gróðavonin hafi valdið því að viðvaranir hafi verið látnar sem vind um eyru þjóta enda komu smiti upp á háönn skíðatímabilsins. Bloomberg bendir á um fjórðungur af hagkerfi Tíról snúist um þjónustu við ferðamenn. Lítið væri um að vera í bæjum á borð við Ischgl ef ekki væri fyrir skíðafólk.

Hópmálsókn í bígerð

Austurrísk neytendasamtök vinna einnig að því að sækja bætur fyrir þúsundir gesta svæðisins. Til greina kemur að höfða hóplögsókn yfir fimm þúsund gesta. Samtökin bíða þess að þúsund blaðsíðna skýrsla lögreglunnar verði send saksóknara og birt opinberlega. Þegar hefur bótakrafa verið lögð fram af þrjátíu þýskum gestum sem sóttu skíðasvæðið heim. Lögmaður hópsins spyr hvers vegna ekki hafi verið brugðist við um leið og ábendingar um smit bárust frá Íslandi.

Auðvelt að vera vitur eftir á

Í umfjöllun Bloomberg er Ischgl lýst sem „Ibiza Alpanna“. Skíðafólk þambi veigar frá morgni til kvölds á fjölsóttum börum og skemmtistöðum þar sem smithættan er talin hafa verið umtalsverð. Þremur dögum eftir viðvörunina frá Íslandi, þann, 7. mars, greindist barþjónn á Kitzloch barnum með veiruna. Hvorki barnum né skíðasvæðinu var lokað vegna þessa. Samstarfsmenn barþjónsins voru prófaðir en aðrir starfsmenn voru fengnir til að vinna á barnum á meðan. Tveimur dögum síðar kom í ljós að allir samstarfsmenn hans voru smitaðir, og þá var barnum lokað.

Yfirvöld á svæðinu segja auðvelt sé að vera vitur eftir á. Ekki hafi legið fyrir hve útbreidd smit voru í upphafi mars og þau hafi farið að öllum verklagsreglum. Þegar umfang smita kom í ljós hafi svæðinu verið lokað.