Helsti viðskiptavinur Bakkavör Group, Tesco, heldur áfram að auka markaðshlutdeild sína á kostnað samkeppnisaðilanna en auk þess að vera leiðandi á matvælamarkaðinum í heild sinni þá er verslunarkeðjan einnig leiðandi í sölu ferskra tilbúinna matvæla. Bakkavör Group nýtur því góðs af sterkri stöðu Tesco á matvælamarkaði og hafa hræringar síðustu mánuða ekki haft teljandi áhrif á afkomu félagsins eins og afkomutölur félagsins bera glöggt merki. Sala Bakkavör Group til Tesco nam um 62% af heildarsölu félagsins fyrstu níu mánuði ársins.

Markaðsumhverfi Bakkavör Group einkennist áfram af nokkrum hræringum sem endurspeglast í verri afkomu helstu samkeppnisaðila félagsins í samanburði við fyrri misseri segir í 9 mánaða uppgjöri félagsins. Lélegri afkoma framleiðenda helgast af aukinni samkeppni milli verslunarkeðja í Bretlandi þar sem hörð barátta hefur verið milli verslunarkeðjanna um að viðhalda markaðshlutdeild sinni. Margar þeirra hafa minnkað hlutdeild sína á síðustu mánuðum sbr. tilkynningar frá Sainsbury's og Marks & Spencer síðustu vikur.

Afrakstur öflugs vöruþróunarstarfs verður sýnilegur á síðari hluta ársins en þá er helsta sölutímabil félagsins. Fjöldi nýrra vara verður settur á markað á haustmánuðum og voru yfir 50 nýjar vörur settar á markað í september mánuði. Tekjuskipting eftir vöruflokkum var eftirfarandi fyrstu níu mánuði ársins:
Tilbúnir réttir (Ready Meals) 33%
Meðlæti (Meal accompaniments) 23%
Fingurfæði (Ethnic Snacks) 18%
Ídýfur og sósur (Dips, dressings and sauces) 26%
Mikill vöxtur hefur verið í framleiðslu meðlætis sem af er ári en sá flokkur óx um 49% á tímabilinu. Tilbúnir réttir uxu um 21%, ídýfur og sósur uxu um 9% og fingurfæði um 2%. Sala fingurfæðis er mest á síðari hluta ársins og skilar vöxtur í þeim vöruflokki sér því ekki fyrr en í lok árs.