Google hóf á þriðjudag sölu á snjallgleraugunum Google Glass til bandarísks almennings í aðeins einn sólarhring. Gleraugun, sem fengust á 1.500 dollara stykkið eða á tæpar 170 þúsund íslenskar krónur, hafa hingað til aðeins verið til prufu fyrir þróunaraðila, en gleraugun gera notendum fært að vafra á netinu, taka ljósmyndir o.fl. með sérstökum filmubúnaði sem fest er við gleraugun snjöllu.

Allir þeir sem keyptu gleraugun í gær fá tækifæri til að gerast sérstakir „könnuðir“ (e. explorers) og geta því veitt Google viðbrögð við notkun gleraugnanna. Nú þegar hafa ýmis fyrirtæki og stofnanir fengið aðgang að gleraugunum til að þróa notkun þeirra, en samkvæmt frétt The Telegraph eru þau m.a. á heilbrigðissviði, í löggæslu, flugþjónustu og í bönkum.