Sala nýrra fólksbíla í október jókst um 12,0% miðað við október í fyrra, en alls voru skráðir 740 nýir fólksbílar nú en voru 661 í fyrra. Einnig varð söluaukning í júlí og september og því hefur orðið söluaukning í þremur af síðustu fjórum mánuðum. Tveir þriðju allra bíla sem einstaklingar kaupa eru svokallaðir nýorkubílar og yfir helmingur allra bílakaupa.

Í heildina hefur salan þó dregist saman um 23,7% á fyrstu 10 mánuðum ársins borið saman við sama tímabil í fyrra, þar sem 8.008 nýir fólksbílar hafa selst í ár en voru 10.499 í fyrra, því ríflega helmingi færri bílar hafa selst til ferðaþjónustunnar en á síðasta ári.

Til einstaklinga hafa selst 4.396 nýir fólksbílar það sem af er ári og er það aukning upp á 1,9% miðað við sama tíma í fyrra þegar selst höfðu 4.314 bílar til einstaklinga. Þessi hluti markaðarins hefur því verið með ágætum í ár að mati Bílgreinasambandsins sem sent hefur tölurnar frá sér.

Almenn fyrirtæki (önnur en bílaleigur) hafa keypt 1.656 bíl í ár miðað við 1.690 bíla í fyrra, eða einungis 2,0% færri bíla en í fyrra. Það er því ljóst að samdráttinn í heildarsölunni það sem af er ári má fyrst og fremst rekja til færri seldra bíla til ferðaþjónustunnar, en selst hafa 56,6% færri nýir bílaleigubílar í ár en í fyrra. Við slíku var að búast í ljósi ástandsins.

Nýorkubílar (rafmagns, tengiltvinn, hybrid, metan) eru 54,7% allra seldra nýrra fólksbíla á árinu (rafmagn 23,8%, tengiltvinn 17,3%, hybrid 13,1% og metan 0,4%) en þetta hlutfall var 26,6% á sama tíma á síðasta ári. Sé horft eingöngu til einstaklinga þá er þetta hlutfall ennþá hærra, eða 67,3% af öllum fólksbílum sem þeir hafa keypt á árinu.