Danskir fjölmiðlar herma að þarlend íþróttavörukeðja, Sportmaster, verði brátt seld einkafjárfestingasjóði. Ekki hefur komið fram um hvaða sjóð er að ræða. Íslenski sjóðurinn Arev hefur gert tilraunir til að taka Sportmaster yfir, en ekki tókst að finna nægilegt fjármagn til að ljúka yfirtökunni.

Í frétt Børsen segir að eftir að fyrirhuguð sameiginleg kaup Arev á Sportmaster og Intersport mislukkuðust, hafi verið gefið grænt ljós á að finna nýjan kaupanda.

Straumur í Danmörku vinnur nú hörðum höndum að því með eigendum Intersport og Sportmaster að finna kaupanda. Það hefur þó reynst þrautinni þyngra á undanförnum mánuðum, vegna stórminnkaðs framboðs á lánsfé á alþjóðlegum fjármálamörkuðum.