Samkeppniseftirlitið (SKE) mun ekki samþykkja sölu á Mílu, dótturfélagi Símans, til franska sjóðastýringafyrirtækisins Ardian án skilyrða og/eða með frekari útskýringum af hálfu samrunaaðila samkvæmt frumniðurstöðu. Eftirlitið tilkynnti félögunum þetta í andmælaskjali en Síminn greinir frá þessu í tilkynningu til Kauphallarinnar. Síminn bendir á að rummatið feli ekki í sér bindandi stjórnvaldsákvörðun.

„Samkvæmt stjórnsýslulögum geta málsaðilar nýtt sér andmælarétt áður en bindandi stjórnvaldsákvörðun verður tekin í málinu. Frumniðurstaða eftirlitsins er að samruninn raski samkeppni og verði ekki samþykktur af Samkeppniseftirlitinu án skilyrða og/eða með frekari útskýringum af hálfu samrunaaðila,“ segir í tilkynningunni.

Síminn hefur frest til þess að svara andmælaskjalinu til 15. júlí næstkomandi en SKE hefur til 27. júlí til að ljúka rannsókn á sölunni. Hins vegar framlengist frestur eftirlitsins sjálfkrafa til 18. ágúst ef óskað verður eftir sáttarviðræðum. Samkeppniseftirlitið hefur haft yfirtöku Ardian á Mílu til rannsóknar frá 8. febrúar síðastliðnum.

Síminn tilkynnti í október síðastliðnum að gengið hafi verið frá kaupsamningi vegna sölu á Mílu til sjóðs í stýringu Ardian. Heildarvirði Mílu í viðskiptunum (e. enterprise value) er 78 milljarðar króna og áætlaður söluhagnaður Símans var rúmlega 46 milljarðar króna. Samkvæmt samningnum fær Síminn greitt á efndadegi um 44 milljarða króna í reiðufé og 15 milljarða í formi skuldabréfs til þriggja ára. Við afhendingu Mílu til Ardian tekur í gildi 20 ára heildsölusamningur á milli Símans og Mílu.