Mikið hefur verið fjallað um söluna á Skeljungi síðla árs 2013 að undanförnu eftir að fréttir birtust af því að Halla Sigrún Hjartardóttir, stjórnarformaður Fjármálaeftirlitsins, hefði hagnast á henni um 830 milljónir króna. Nú hefur hins vegar komið fram að Halla hagnaðist ekki á sölunni samkvæmt yfirlýsingu frá henni, en hluthafasamkomulag mun hafa komið í veg fyrir það.

Salan var valin viðskipti ársins sama ár að mati dómnefndar Markaðarins, sem er fylgirit Fréttablaðsins um viðskipti. Voru hjónin Svanhildur Nanna Vigfúsdóttir og Guðmundur Örn Guðmundsson eigendur 92% hlutafjár í Skeljungi en þau höfðu keypt félagið af Glitni, og síðar Íslandsbanka, fyrir um 2,5 milljarða króna.

Þegar félagið var selt síðla árs 2013 var verðmiðinn um tíu milljarðar, en með í kaupunum fylgdi færeyska olíudreifingarfélagið P/F Magn. Mun virðisaukning félagsins helst vera góðum hópi stjórnenda og starfsmönnum að þakka, að því er haft er eftir Svanhildi á vef Stefnis sem hafði verið kaupandanum innan handar.

Kaupandinn var framtakssjóðurinn SÍA II sem er framtakssjóður í eigu lífeyrissjóðanna. Í umsögn dómnefndar Markaðarins segir að sé rétt að Svanhildur og Guðmundur hafi fengið tíu milljarða fyrir sinn snúð séu þau réttnefndir snillingar.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .