100 milljónir spöruðust við fimm sameiginleg útboð ríkisstofnana. Verkefnastjórn um bætt innkaup stóð sameiginlega að fimm örútboðum innan núverandi rammasamningskerfis á vormánuðum með þessum árangri.

Tóku alls 55 stofnanir þátt í útboðunum og er talið að lágmarksávinningur þeirra sé yfir 100 milljónir króna samanlagt. Segir jafnframt í fréttatilkynningu frá Fjármála- og Efnahagsráðuneytinu um málið að talið sé að stofnanir ríkisins fái ekki einungis lægra verð heldur einnig aukin gæði með sameiginlegu útboði.

„Árangur af framangreindum tilraunaverkefnum staðfestir að fjölmörg tækifæri eru til staðar til að ná fram hagræðingu hjá ríkinu með sameiginlegum innkaupum,“ segir í tilkynningu ráðuneytisins.

Þetta er einn af liðum tengdum hagræðingu hjá ríkisstofnunum með sameiginlegum innkaupum. Ríkiskaup stefna jafnframt að nýju fyrirkomulagi til að bæta innkaup ríkisins.