Í tilkynningu til Kauphallarinnar vegna sameiningar Kaupþings og Spron kemur fram að samruninn er háður samþykki hluthafafundar Spron og Fjármálaeftirlitsins.

Þá er samruninn einnig háður því að samkeppnisyfirvöld ógildi hann ekki eða setji honum skilyrði sem stjórnir félaganna telja óviðunandi eða leiði til þess að óhjákvæmilegt sé að leggja ákvörðun um samrunann að nýju fyrir hluthafafund í Spron.

Þá kemur jafnframt fram að samþykkis lánveitenda vegna samrunans hefur þegar verið aflað.

Áætlað er að hluthafafundur í SPRON verði haldinn í byrjun ágúst. Fyrir þann fund verður lagt álit utanaðkomandi fjármálafyrirtækis á því endurgjaldi sem kemur fyrir hlutafé í Spron við samrunann.

„Sameinað félag mun ekki taka við rekstri, eignum og skuldum, svo og réttindum og skyldum SPRON fyrr en öll skilyrði samrunans hafa verið uppfyllt,“ segir í tilkynningunni.