Sturlaugur Jónsson & Co ehf og Véladeild Bræðranna Ormsson ehf. hafa sameinast í nýtt félag undir nafninu Sturlaugur Jónsson & Co ehf. frá og með 1. mars 2005. "Við þessa sameiningu verður til eitt öflugt félag sem hefur það megin markmið að þjónusta sjávarútveg, landbúnað og verktaka með vélar og búnað ásamt fylgi- og varahlutum þeim tengdum. Sameinað félag mun velta u.þ.b. 600 milljónum króna á þessu ári og verða eitt hið öflugasta á sínu sviði," segir í tilkynningu félagsins.

Hið nýja félag er í eigu fyrrum hluthafa Sturlaugar Jónssonar ehf. sem
eiga 50% og Bræðranna Ormsson ehf. sem á 50%. Heildar hlutafé félagsins er 50 milljónir.

Stjórnarformaður verður Gunnar Örn Kristjánsson og framkvæmdarstjóri
verður Atli Viðar Jónsson. Hjá félaginu verða 11 starfsmenn til að byrja
með.

Félagið mun fyrst um sinn vera með tvær starfsstöðvar þ.e. að Fiskislóð
26 og að Lágmúla 9, en gert er ráð fyrir að starfsemi félagsins verði komin
í eitt húsnæði á miðju ári. Leit að hentugu húsnæði stendur yfir segir í tilkynningunni.

Bræðurnir Ormsson hafa rekið véladeild í mörg undangengin ár og selt
m.a. O & K vinnuvélar frá Þýskalandi og Langendorf malarvagna.

Með breyttu eignarhaldi og samþjöppun vörumerkja erlendis verður
framleiðsla O&K, Fiat Kobelco og New Holland sameinuð undir merki New
Holland. Sturlaugur Jónsson og Co ehf. mun geta boðið breiða línu af tækjum til verktaka ásamt því að bjóða Clark lyftara, Langendorf malarvagna og fleiri þekktar gæðavörur.

Sturlaugur Jónsson & Co ehf. mun eftir sem áður vera með Landini
dráttarvélar, þjónustu fyrir ABB forþjöppur, þjónustu fyrir Deutz vélar og
rafstöðvar ásamt fjölda annara þekktra vörumerkja fyrir sjávarútveg,
landbúnað og verktaka.

Félögin sem nú sameina krafta sína í þessu félagi hafa verið lengi í
rekstri. Annarsvegar Sturlaugur Jónsson & Co sem verður 80 ára á þessu ári
og Bræðurnir Ormsson ehf. sem verða 82 ára á árinu.

Annar rekstur Bræðranna Ormsson ehf. verður óbreyttur.