*

fimmtudagur, 21. október 2021
Innlent 21. apríl 2021 10:35

Sameyki mótmælir útvistun hjá Strætó

Sameyki gagnrýnir harðlega ummæli framkvæmdastjóra Strætó um að hagkvæmara sé að útvista akstri strætisvagna.

Ritstjórn
Haraldur Guðjónsson

Trúnaðarmannaráðsfundur Sameykis stéttarfélags í almannaþjónustu lýsir furðu og óánægju með opinbera umræðu framkvæmdastjóra Strætó bs. um hagkvæmni á útvistun á akstri strætisvagna sem birtist í Viðskiptablaðinu þann 9. apríl síðastliðinn.

Jóhannes Rúnarsson, framkvæmdastjóri Strætó, sagði í viðtalinu að um 60% aksturs sé kominn í hendur einkaaðilanna Kynnisferða og Hagvagna. Hann sagði jafnframt að rekstur og mönnun vagnanna væri ekki hluti af grunnhlutverki Stærtó, heldur felist það í skipulagningu og þjónustu.

„Vekur sú fullyrðing upp þá spurningu, hvar var ákveðið að þjónusta við borgaranna í almannasamgöngum ætti að færast til einkaaðila?“ segir í tilkynningu Sameykis. Þessi staða skjóti skökku við í ljósi þess að það sé á ábyrgð stjórnenda Strætó bs. að reka ,verkstæði, þvottastöðvar og fleira“ með skilvirkum hætti. 

Var þar vísað í orð Jóhannesar um að að rútufyrirtækin sem Strætó útvistar akstri til nái samlegð með ferðaþjónustuakstri, þar á meðal með að samnýta verkstæði og þvottastöðvar. Hann sagði jafnframt að þessi fyrirtæki geti náð mun betri nýtingu út úr fastafjármununum en Strætó gæti nokkurn tímann gert.

„Það er einnig ljóst að enginn félagsmaður Sameykis situr auðum höndum í vinnunni sinni. Ef stærðarsamlegð er í boði, ætti einmitt alls ekki að úthýsa þjónustunni því umfang strætisvagnakerfisins er slíkt, að ferðaþjónustufyrirtæki ættu ekki að geta keppt við öflugan og skilvirkan rekstur þess,“ segir í tilkynningu Sameykis.

Jóhannes sagði launakjör vera sambærileg hjá Strætó og þeim einkaaðilum sem sinna akstri fyrir fyrirtækið, en önnur réttindi geti verið ólík og kostað Strætó meira, þó að mikið hafi dregið saman með því síðustu ár.

„Staðan er einfaldlega sú, að forstjóri Strætó bs., heldur  því fram að það megi komast hjá því að greiða starfsmönnum Strætó bs. samkvæmt kjarasamningum á opinberum markaði. Það er ábyrgðarleysi og skömm sveitarfélaga ef þau ætla sér að komast undan skyldum sínum og skuldbindingum sem samið hefur verið um, með því að úthýsa verkefnum sem þau eiga sjálf að bera ábyrgð á gagnvart samfélaginu. Þessi tilhneiging opinbera aðila er allt of algeng í samfélagi okkar og telst óþolandi í réttindabaráttu launafólks. Sameyki mótmælir því harðlega öllum hugmyndum um áframhaldandi útvistun í rekstri Strætó bs,“ segir í lok tilkynningarinnar Sameykis.

Í skýrslu sem ráðgjafasvið KPMG vann fyrir Strætó síðasta sumar kemur fram að akstur verktaka kostar Strætó 12.881 krónu á klukkustund, eða 550 krónur á hvern ekinn kílómetra, samanborið við 15.540 og 632 króna kostnað við eigin akstur með núverandi vagnaflota. Klukkustundakostnaðurinn er því um 21% hærri við eigin akstur og kílómetrakostnaðurinn 15% hærri.

Stikkorð: Strætó Sameyki