Ríkiskaup fyrir hönd Framkvæmdasýslu ríkisins og Landspítala - háskólasjúkrahúss auglýstu um síðustu helgi eftir teymum sérfræðinga til að taka þátt í samkeppni um gerð deiliskipulags og nánari útfærslu spítalastarfseminnar ásamt starfsemislýsingu bygginga og innri tengslum þeirra fyrir Landspítala- háskólasjúkrahús við Hringbraut í Reykjavík.

Til samkeppninnar verða valin allt að sjö teymi og fá þau samkeppnisgögn afhent að loknu forvali þessu. Það teymi sérfræðinga sem verður hlutskarpast í samkeppninni mun, auk vinnu við útfærslu á deiliskipulagi svæðisins, vinna áfram með verkkaupa sem ráðgjafi við nánari útfærslu spítalasvæðisins.

Forvalsgögn verða einungis fáanleg á vefsíðu Ríkiskaupa www. rikiskaup.is undir enska heitinu "University Hospital of Iceland Planning comp" og verða fyrirspurnir og svör birt á sama stað. Umsóknum um þátttöku í forvalinu skal skilað inn kl. 16:00 þann 8. mars nk., samkeppnisgögn verða áfhent í byrjun apríl og skil á keppnistillögum verður í ágúst. Svæðisskipulag skal liggja fyrir þann 1. apríl á næsta ári.