Samkeppniseftirlitið telur að samruni fjarskipta- og fjölmiðlasamstæðunnar Dagsbrúnar og og öryggisþjónustufyrirtækisins Securitas geti takmarkað samkeppni og möguleika nýrra aðila til að koma inn á öryggisþjónustumarkaðinn.

Í niðurstöðu Samkeppniseftirlitsins segir að samruninn geti leitt til samtvinnunar þjónustu af mismunandi þjónustumörkuðum og stuðlað að ógagnsæi í verðlagningu og hömlum á samkeppni og hefur því sett samrunanum skilyrði, sem Dagsbrún hefur samþykkt.

Skilyrðin eru að Securitas er óheimilt að gera það að skilyrði fyrir kaupum á þjónustu sem félagið veitir að einhver þjónusta annars dótturfélags Dagsbrúnar fylgi með í kaupunum. Ennfremur er Securitas óheimilt að verðleggja þjónustu fyrirtækisins sem boðin er með þjónustu annars dótturfélags Dagsbrúnar. þannig að verðlagning tilboða jafngildi skilyrði um að ein tegund þjónustu sé keypt með annarri.

Samkeppniseftirlitið bendir á að opinberlega hafi Dagsbrún birt þær framtíðarhorfur félagsins að ný fyrirtæki í samstæðu Dagsbrúnar, eins og Securitas, styrki enn frekar markaðssókn inn á heimili og einstaklingsmarkað þar sem áskriftartekjur skapa sterkan grunn.

Einnig setur Samkeppniseftirlitið það skilyrði að ef Securitas býður sína þjónustu ásamt þjónustu annars dótturfélags Dagsbrúnar skal verð hverrar þjónustu koma fram í tilboðinu. Sama gildir ef önnur dótturfélög Dagsbrúnar bjóða sína þjónustu ásamt þjónustu Securitas.

Í júní ógilti Samkeppniseftirlitið samruna Dagsbrúnar og afþreyingarfyrirtækisins Senu. Dagsbrún hefur ákveðið að skjóta ákvörðuninni til Áfrýjunarnefndar samkeppnismála.