Samruni Landsbankans og Sparisjóðs Norðurlands hefur nú verið samþykktur af eftirlitsaðilum, eins og Viðskiptablaðið greindi frá fyrr í dag , og tekur formlega gildi í dag, 4. september 2015. Bankaráð Landsbankans samþykkti samrunann fyrir hönd bankans á fundi sínum í dag en áður hafði fundur stofnfjárhafa Sparisjóðsins veitt samþykki sitt. Kemur þetta fram í tilkynningu til kauphallarinnar.

Sameinað fyrirtæki verður rekið undir nafni Landsbankans, starfsmenn sjóðsins verða starfsmenn Landsbankans, allar eignir og skuldbindingar sparisjóðsins renna inn í bankann og hann tekur við rekstri allra útibúa sjóðsins.

Sparisjóður Norðurlands rekur útibú og afgreiðslur á Dalvík, Raufarhöfn, Þórshöfn, Kópaskeri, Suðureyri og á Bolungarvík.