Samskip hafa keypt hollenska flutningafyrirtækið Geest North Sea Line og verður rekstur þess sameinaður gámaflutningastarfsemi Samskipa í Evrópu undir nafni Geest. Kaupverð er ekki gefið upp en nærri lætur að velta Samskipa tvöfaldist milli ára og verði um 45 milljarðar íslenskra króna á þessu ári. Geest North Sea Line verður rekið sem dótturyfirtæki Samskipa og verður eitt stærsta gámflutningafélag í siglingum innan Evrópu. Um 60% af heildarveltu Samskipa verður vegna starfsemi utan Íslands og Ásbjörn Gíslason, forstjóri Samskipa erlendis, verður stjórnarformaður Geest.

Eftir kaupin á Geest eru Samskip með 24 skip í föstum áætlunarsiglingum og 15 skip í öðrum verkefnum þ.á.m. frystiflutningum, auk fjölda leiguskipa í tímabundnum verkefnum. Gámaeign Samskipa ríflega tvöfaldast og verður heildarflutningamagn félagsins um 800 þúsund gámaeiningar á ári. Starfsmönnum fjölgar um fimmtung og verða hátt í 1.200 talsins, þar af um 500 erlendis. Skrifstofum félagsins fjölgar um 12 og verða 45 talsins í 19 löndum, auk þess sem umboðsmenn eru starfandi um allan heim.

Tilkynnt var um kaupin á Geest samtímis í Hollandi og á Íslandi í dag. Ólafur Ólafsson, stjórnarformaður Samskipa, segir að með þeim rætist draumur þeirra Samskipamanna um að styrkja verulega rekstragrundvöll félagsins á hinum kröfuharða Evrópumarkaði því starfsemi félaganna passi mjög vel saman og skörunin sé sáralítil.

?Við erum með sterka stöðu í flutningum til og frá Íslandi, í Skandinavíu og Eystrasaltslöndunum og áfram austur á bóginn en höfum verið að leita leiða til að efla starfsemi okkar á Bretlandi og Írlandi, og einnig sunnar í álfunni. Það lá því beint við að hefja viðræður við eigendur Geest því þeir eru markaðsleiðandi í gámaflutningum í Vestur- og Suður-Evrópu til Bretlandseyja og sú starfsemi fellur mjög vel að okkar. Þeir hafa einnig sýnt mikið frumkvæði í þróun gámaflutninga, sem hefur skapað þeim ný sóknarfæri í þeirri hörðu samkeppni sem ríkir í þessum rekstri á meginlandinu.?

Fyrir kaupin var heildarvelta Samskipa áætluð um 26 milljarðar króna á þessu ári og velta Geest um 18 milljaðar króna, þannig að ljóst er að velta Samskipa eykst verulega, en heildarvelta félagsins árið 2004, heima og erlendis, var 23 milljarðar króna.

?Það tekur okkur nokkurn tíma að samþætta þjónustu félaganna,? segir Ásbjörn Gíslason, forstjóri Samskipa erlendis, sem borið hefur hitann og þungann af undirbúningi kaupanna á Geest North Sea Line og verðandi stjórnarformaður Geest. ?Með þessu færast gámaflutningar Samskipa, að undanskildum Íslandssiglingunum, til Geest en áfram verður unnið að þróun frystiflutninga hjá Samskipum erlendis en þeir þættir erlendu starfseminnar sem snúa að þjónustu við Samskip á Íslandi munu í auknum mæli heyra undir starfsemina á Íslandi.?

?Það má segja að með þessu sé að verða frekari fagleg aðgreining innan Samskipa,? segir Knútur G. Hauksson, forstjóri félagsins á Íslandi, ?en það verður engin meginbreyting á stjórnun félagsins.?

Eftir kaupin á Geest eru Samskip orðin þriðja stærsta gámaflutningafyrirtækið með vöruflutninga til og frá höfninni í Rotterdam, stærstu vöruflutningahöfn Evrópu.

?Við lítum á félagið sem ákjósanlegan vettvang til frekari vaxtar fyrir Samskip,? segir Ásbjörn Gíslason. ?Þar er öflugt stjórnunarteymi við stjórnvölinn sem kemur til liðs við okkur. Þeir hafa verið mjög framsæknir í sinni starfsemi og því hefur félagið alla burði til að vaxa og dafna á þeim skilgreinda markaði sem það starfar á.?

Geest North Sea Line er með höfuðstöðvar í Rotterdam og rekur alls 12 skrifstofur á meginlandi Evrópu, í Bretlandi og á Írlandi og eru starfsmenn 200 talsins. Flutningakerfið samanstendur m.a. af níu gámaskipum í föstum áætlunarsiglingum milli Rotterdam, Bretlandseyja, Írlands og Spánar og hátt í 6.000 gámum, sem fluttir eru jöfnum höndum með skipum, lestum, fljótaprömmum og trukkum, allt eftir því hvað þjónar best hagsmunum viðskiptavinanna.

?Margir spennandi möguleikar opnast í tengslum við það frumkvöðlastarf sem stjórnendur Geest hafa leitt varðandi notkun 45 feta gáma,? segir Ásbjörn Gíslason. ?Þessi tegund gáma hefur rutt sér til rúms í Evrópuflutningunum á síðustu árum í aukinni samkeppni við vöruflutningabíla. Nýjustu útfærslu 45 feta gámanna hjá Geest er hægt að hlaða og afferma frá hlið og einnig hefur félagið verið leiðandi í samstarfi um þróun 45 feta kæligáma sem kallast Coolboxx, og er notkun þeirra að gefa mjög góða raun. Við erum mjög spenntir fyrir þeim valkosti, ekki síst vegna frekari áforma um uppbyggingu á frystiflutningum félagsins erlendis,? segir Ásbjörn Gíslason.

Viðskiptabanki Samskipa í Hollandi, Fortis Bank, sá um ráðgjöf og fjármögnun vegna kaupanna á Geest North Sea Line. Einnig verða kaupin fjármögnuð með útgáfu nýs hlutafjár í Samskipum.
Rótgróið fjölskyldufyrirtæki
Geest North Sea Line var stofnað formlega á sjöunda áratug síðustu aldar en það á rætur að rekja til áranna eftir seinni heimsstyrjöld þegar þrír hollenskir garðyrkjubændur, van Geest bræður, sem voru að hasla sér völl í viðskiptum í Bretlandi, hófu siglingar yfir Ermasund með varning sinn. Tveir bræðranna settust þar að en sá þriðji sinnti starfseminni heima fyrir. Í áranna rás þróuðust matvælaframleiðsla Geest fjölskyldunnar og skipasiglingarnar í ólíkar áttir og endanlega var skilið á milli starfseminnar þegar Geest matvælafyrirtækið var skráð á verðbréfamarkað í Englandi árið 1986. Eignuðust þá synir bróðurins í Hollandi skipafélagið. Það er einn þeirra, Jakob van Geest, stjórnarformaður Geest North Sea Line, og sá sem rekið hefur fyrirtækið á umliðnum árum sem er að selja Samskipum reksturinn.

?Ég er orðinn 61 árs og það er enginn úr yngri kynslóðinni í fjölskyldunni sem er tilbúinn til að halda uppi merkinu og því varð það úr að selja Samskipum félagið, enda er ég sannfærður um að þar verður vel haldið á málum, bæði rekstrarlega og gagnvart starfsfólki.