Félag íslenskra hjúkrunarfræðinga átti fund með samninganefnd ríkisins síðasta föstudag í yfirstandandi kjaradeilum. Þar höfnuðu hjúkrunarfræðingar tilboði ríkisins um 359 þúsund króna byrjunarlaun í stéttinni eftir fjögur ár.

„Þar kom fram að eftir fjögur ár yrðu byrjunarlaun hjúkrunarfræðinga 359 þúsund samkvæmt okkar útreikningum. Eða 59 þúsund krónum hærra en lágmarkslaun á almenna markaðnum á þeim tíma. Og það er eitthvað sem okkar félagsmenn munu ekki samþykkja,“ segir Ólafur G. Skúlason, formaður Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga, í samtali við RÚV .

Þar kemur fram að byrjunarlaun hjúkrunarfræðinga séu nú 304 þúsund krónur á mánuði. Samninganefnd hjúkrunarfræðinga kom með gagntilboð á fundinum á föstudag, en samninganefnd ríkisins féllst ekki á tillögurnar. Því var fundi slitið, en engir samningafundir í kjaradeilum eru á dagskrá sáttasemjara í dag eða á morgun.