Stjórn Samtaka sprotafyrirtækja hefur sent frá sér ályktun þar sem fagnað er áformum um eflingu Tækniþróunarsjóðs og áframhaldandi uppbyggingu endurgreiðslna rannsóknar- og þróunarkostnaðar í fjárlagafrumvarpi ársins 2015.

Þá fagna samtökin jafnframt þeirri stefnu sem birtist í aðgerðaáætlun Vísinda- og tækniráðs í samráði við stjórnvöld sem feli í sér að stefna að áframhaldandi uppbyggingu samkeppnissjóðanna á árinu 2016, skattalegri hvatningu til fjárfestingar í hlutabréfum nýsköpunarfyrirtækja og auknum heimildum til endurgreiðslu rannsóknar- og þróunarkostnaðar í gegnum skattkerfið.

Segir í ályktuninni að tækni- og hugverkaiðnaður hafi eflst til muna á undanförnum árum og útflutningsverðmæti greinarinnar nemi nú um 20% af heildarútflutningstekjum landsins. Leggja samtökin áherslu á mikilvægi þess að vinna einstaka liði í áætluninni í góðum tengslum við fulltrúa greinarinnar þannig að sem best verði staðið að innleiðingu umbóta og skilvirkni þeirra.

Þá benda samtökin jafnframt á mikilvægi þess að hraða framangreindum umbótum, enda um fjárfestingu að ræða sem sé til þess fallin að auka tekjur ríkissjóðs bæði til skamms og langs tíma fremur en að vera útgjaldaaukandi. Umbætur í umhverfi nýsköpunar gagnist ekki bara fyrirtækjum í tækni- og hugverkagreinum, því þær gegni einnig mikilvægu hlutverki við að auka framleiðni og verðmætasköpun í öðrum atvinnugreinum og í starfsemi á vegum ríkis og sveitarfélaga. Þá vilja samtökin leggja áherslu á mikilvægi þess að vinna að umbótum og meiri samfellu í fjármálaumhverfi fyrirtækja, lækkun fjármagnskostnaðar og afnámi gjaldeyrishafta.