Sandgerðisbær hefur greitt upp skuldabréf sem tekið var árið 2003 og hefur óskað eftir því að það verði tekið úr viðskiptum í Kauphöllinni. Auðkenni flokksins í Kauphöll Íslands er SANB 03 1.

Skuldabréfið nam 350 milljónum króna á sínum tíma og var skráð í Kauphöll á milli jóla- og nýárs árið 2009. Það var á gjalddaga í júní árið 2024. Samkvæmt lánasamningi þá var þetta verðtryggt lán sem greiða átti af í 80 greiðslum. Það bar 5,1% vexti. Samkvæmt skilmálum var hins vegar heimilt að greiða lánið upp á hvaða gjalddaga sem var frá og með 40. gjalddaga. Uppgreiðsluálag er 0,1% af uppreiknuðum höfuðstól bréfsins fyrir hvert ár sem eftir er af bréfinu.

Fram kemur í tilkynningu frá Kauphöllinni að skuldabréfin verði tekin úr viðskiptum við lok viðskiptadags 18. júní næstkomandi.