Landsbankinn mun frá og með þessu leitast við að gæta sanngirni, jafnfræðis og meðalhófs í samskiptum sínum við birgja og þjónustuaðila. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá bankanum og er það sagt bæði bankanum og samfélaginu til bóta. Í tilkynningunni kemur jafnframt fram að nýmörkuð stefna sé í samræmi við stefnu bankans um samfélagslega ábyrgð.

Þar segir einnig: „ Landsbankinn tekur tillit til umhverfis- og samfélagsstefnu í viðskiptum sínum við birgja og þjónustuaðila.  Jafnframt styður bankinn þá í að auka og þróa umhverfisvitund í starfsemi sinni.  Landsbankinn leitast við að kaupa vörur og þjónustu í nærsamfélaginu sé því við komið út frá faglegum sjónarmiðum. Landsbankinn  velur þá birgja og vörur sem eru fjárhagslega hagkvæmastar fyrir bankann. Landsbankinn leggur áherslu á að nota rafræna reikninga í viðskiptum sínum og leggur áherslu á gott samstarf við birgja og þjónustuaðila."

Varðandi sölu eigna segir að bankinn muni fylgja fyrirfram skilgreindu og gagnsæju söluferli. „ Fasteignir bankans, bifreiðar og  lausafjármunir eru seldar fyrir milligöngu viðurkenndra fagmanna eða í opnu söluferli.  Landsbankinn tekur hagstæðasta tilboði sem berst í eign bankans af því gefnu að tilboðið uppfylli lágmarkskröfur um verð, greiðslur og greiðsluhæfi kaupanda og samfélagssjónarmiða," segir í tilkynningunni.