Á nýju ári hefur Englandsbanki, þ.e. seðlabanki Bretlands, deilt viðhorfi sínu gagnvart helstu áhættuþáttum í bresku efnahagslífi. Samkvæmt frétt Bloomberg hafa forsvarsmenn bankans, það sem af er ári, flutt ræður með rúmlega 20.000 orðum í þremur ræðum auk þess að birta fundargerð mánaðarlegs fundar peningastefnunefndar bankans.

Meðal helstu umfjöllunarefna bankans eru verðbólga, stýrivextir, áhyggjur af versnandi efnahag heimsins. Bankinn hefur hins vegar lítið sem ekkert rætt möguleikann á útgöngu Bretlands úr Evrópusambandinu, eða svokallað Brexit (samansett úr orðunum Britain og Exit).

Að sögn Bloomberg er möguleg útganga Bretlands úr Evrópusambandinu einn helsti áhættuþátturinn fyrir breskt efnahagslíf. David Cameron, forsætisráðherra Bretlands hefur tilkynnt að þjóðaratkvæðagreiðsla verði haldin í Bretlandi á þessu ári um áframhaldandi veru Bretlands í sambandinu.

Bankastjóri Seðlabanka Bretlands, Mark Carney, hefur einnig gefið það út að bankinn muni ekki tjá sig um mögulega afleiðingar útgöngu Bretlands. „Við eigum við staðreyndir málsins og eins og þær eru núna þá munum við eiga við óbreytt ástand. Okkar starf er að gæta þess að óbreytt ástand gangi eins ljúflega fyrir sig og mögulegt er.“