Seðlabanki Íslands segist í skriflegu svari við fyrirspurn vb.is ekki geta tjáð sig um framvindu þeirra mála sem mögulega kunna að vera til rannsóknar. Tilefni fyrirspurnarinnar var bréf Samherja til starfsmanna fyrirtækisins, sem vb.is greindi frá fyrr í dag. Í bréfinu var greint frá úttekt á dótturfyrirtækinu Seagold, sem unnin var fyrir fyrirtækið.

Þar hafi niðurstaðan verið sú að ekkert væri athugavert við viðskipti Samherja og Seagold og því engin þörf á að breyta þar nokkru, hvorki verðlagningu né aðferðum við verðlagningu. Þá kom fram í bréfinu hörð gagnrýni á Seðlabankann frá þeim Þorsteini Má Baldvinssyni og Kristjáni Vilhelmssyni, en þeir segja að Seðlabankinn hafi „ítrekað farið með rangfærslur í tilhæfulausri árás sinni á Samherja.“

Sem fyrr segir getur Seðlabankinn ekki tjáð sig um framvindu mála sem mögulega kunna að vera til rannsóknar hjá bankanum.