Seðlabankinn áréttar að ekki hafi verið farið fram á endurupptöku í máli Heiðars Más Guðjónssonar og að bankinn hafi engin áform þar að lútandi. Þá hafi bankinn ekki reynt með neinum hætti að hafa áhrif á störf embættis ríkissaksóknara.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá bankanum sem send var fjölmiðlum vegna viðtals við Helga Magnús Gunnarsson, vararíkissaksóknara, í hádegisfréttum RÚV í dag. Þar sagði Helgi meðal annars að hann skyldi í kurteisisskyni hlusta á athugasemdir Seðlabankans en að þær kæmu ekki til með að breyta niðurstöðu embættisins um að fella niður rannsóknina. Helgi sagði embættið ekki taka við fyrirmælum frá öðrum, hvorki ráðherra né stofnunum.

Eftirfarandi er tilkynning Seðlabankans í heild:

Tilkynning frá Seðlabanka Íslands til fjölmiðla:

Vegna viðtals við Helga Magnús Gunnarsson, vararíkissaksóknara, í hádegisfréttum RÚV í dag áréttar Seðlabanki Íslands að bankinn óskaði eftir fundi með Sigríði J. Friðjónsdóttur, ríkissaksóknara í þeim tilgangi að fara yfir röksemdir fyrir afstöðu vararíkissaksóknara til málsins sem um ræðir í fréttinni. Það skal áréttað að Seðlabankinn hefur ekki farið fram á endurupptöku þessa máls og hefur engin áform þar að lútandi né hefur hann reynt með öðrum hætti að hafa áhrif á störf embættis Ríkissaksóknara. Hins vegar telur Seðlabankinn að í röksemdafærslu vararíkissaksóknara fyrir afstöðu sinni komi fram grundvallarmisskilningur varðandi eðli fjármagnshreyfinga og framkvæmd gjaldeyrishafta, enda um flókið sérfræðimálefni að ræða. Yrði þessi rökstuðningur viðurkenndur hefði það veruleg áhrif á framkvæmd gjaldeyrishafta og önnur mál. Seðlabankinn fékk ekki tækifæri til þess að veita umsögn um þessi atriði. Þess skal getið að þessi atriði voru ekki nefnd í ákvörðun sérstaks saksóknara um að hætta rannsókn málsins og sú niðurstaða að hafna kæru Seðlabankans gæti þess vegna staðið án þeirra.