Actavis er ekki í söluferli og engin áform liggja fyrir ennþá um slíkt.

Þetta segir Sigurgeir Guðlaugsson, framkvæmdastjóri Novator Partners, en Sigurgeir situr  einnig í stjórn Actavis. Novator, sem er í eigu Björgólf Thors Björgólfssonar, á um 80% hlut í Actavis.

Eins og fram kom í dag greinir Reuters fréttastofan frá því að unnið sé að því að setja íslenska lyfjaframleiðandann Actavis í söluferli og telur jafnframt að eigendur Actavis geti fengið allt að 6 milljarða Bandaríkjadali eða jafnvel meira fyrir félagið.

Eins og Viðskiptablaðið hefur áður greint frá hefur Actavis ráðið bandaríska bankann Merrill Lynch til ráðgjafar.

„Við höfum verið í nánu samstarfi við Merrill Lynch og sú vinna er enn í gangi,“ segir Sigurgeir og segir að enn hafi engin ákvörðun verið tekin með framtíð Actavis.

Hann staðfestir að félagið sé, í samstarfi við Merrill Lynch að skoða alla möguleika. Þeir gætu meðal annars falið í sér sameiningu á öðrum félögum, yfirtöku á öðrum félögum, sölu Actavis nú eða að skrá félagið aftur í Kauphöllina.

Aðspurður um hvort önnur félög hafi sýnt Actavis áhuga segir Sigurgeir að stjórn Actavis hafi fundið fyrir slíkum áhuga þó engar formlegar viðræður hafi farið fram né formleg tilboð borist.