Nýtt mál embættis sérstaks saksóknara á hendur þremur fyrrverandi lykilstjórnendum Kaupþings er leit að sökudólgum í kjölfar efnhagshrunsins. Þetta fullyrðir Hreiðar Már Sigurðsson, fyrrverandi bankastjóri Kaupþings, og einn þriggja sakborninga í máli sérstaks saksóknara. Málið snýst um lánveitingu til sex viðskiptavina Kaupþings í tengslum við kaup þeirra á skuldatryggingum á Kaupþing. Félögin voru tengd þeim Skúla Þorvaldssyni, Ólafi Ólafssyni, einum af stærstu hluthöfum Kaupþings, og breska fjárfestingum Kevin Stanford.

Málið var þingfest í gær og mætti Hreiðar einn sakborninga í dómssal. Hinir sem ákærðir eru í málinu eru Sigurður Einarsson, fyrrverandi stjórnarformaður Kaupþings, og Magnús Guðmundsson, fyrrverandi bankastjóri Kaupþings í Lúxemborg. Þetta er þriðja ákæra sérstaks saksóknara á hendur þeim.

Hreiðar segir í samtali við Fréttablaðið að hann vilji að málinu gegn sér verði vísað frá á grundvelli brota við rannsókn málsins en símtöl hans við verjanda sinn voru hleruð af starfsmönnum sérstaks saksóknara. Þá kallar hann málið nornaveiðar því leita hafi þurft sökudólga. Það hafi hentað mjög mörgum að efnahagskerfi Íslands hafi hrunið vegna þess að hér voru óheiðarlegir bankamenn.