„Þessi breyting hefur legið lengi fyrir,“ segir Sigurður Erlingsson, framkvæmdastjóri Íbúðalánasjóðs (Íls). Eygló Harðardóttir, félags- og húsnæðismálaráðherra, kynnti á fundi ríkisstjórnarinnar í morgun breytingu á reglugerð um veðbréf og íbúðabréf sjóðsins. VB.is fékk ekki upplýsingar í ráðuneytinu um það hvað fólst í breytingunni þegar eftir því var leitað í dag. Sigurður segir málið snúast m.a. um ný lög um neytendalán sem tóku gildi um síðustu mánaðamót og breytingu á fjármögnun Íbúðalánasjóðs samhliða innleiðingu laganna.

„Allt er frágengið. Þetta er tæknilegur frágangur sem hefur legið fyrir í töluverðan tíma. Þetta er jú breyting á fjármögnunarkerfinu og í ljósi stöðunnar þótti mönnum best að kynna það fyrir ríkisstjórn,“ segir Sigurður. Hann bendir á að fjármögnunin verði kynnt betur síðar.

Sigurður segir þó að fjallað hafi verið um hana í ársreikningi Íbúðalánasjóðs fyrir síðasta ár.

Kynna nýja fjármögnunarflokk með uppgreiðsluheimild

Í ársreikningnum segir orðrétt:

„Á síðustu mánuðum hefur verið mikil umræða um verðtryggð og óverðtryggð lán, skilmála neytendalána og húsnæðislánakerfi. Það er sýn stjórnenda sjóðsins að hlutverk hans verði ekki uppfyllt nema hann bjóði bæði upp á verðtryggð og óverðtryggð lán til allra landsmanna. Þá er horft til þess að lánaskilmálar í útlánum sjóðsins verði færðir nær því sem þekkist í nágrannalöndum okkar. Með breytingu á lögum um neytendalán sem Alþingi samþykkti 18. mars 2013 er ljóst að Íbúðalánasjóður mun þurfa að fjármagna ný verðtryggð útlán sín með nýjum lánaflokki frá og með gildistöku laganna þann 1. september 2013. Stefnt er að því að nýr verðtryggður fjármögnunarflokkur verði með uppgreiðsluheimild sem samsvarar uppgreiðslum viðskiptavina sjóðsins. Með slíkri breytingu á fjármögnunarhlið sjóðsins er búið að loka uppgreiðsluáhættu nýrra útlána og þannig leggja grunn að framtíðarskipulagi áhættustýringar sjóðsins, þar sem áhersla er lögð á sem mest jafnvægi eigna og skulda. Með nýjum fjármögnunarflokki munu uppgreiðsluþóknanir lántakenda verða hóflegar.“