Arabíski auðkýfingurinn Alwaleed bin Talal er ekki par sáttur við nýjasta milljarðamæringatal bandaríska tímaritsins Forbes. Hann er þar 26. sæti yfir ríkustu einstaklinga í heimi og er auður hans metinn á 20 milljarða dali, jafnvirði tæpra 2.500 milljarða íslenskra króna sem er um það bil ein og hálf landsframleiðsla Íslands. Alwaleed bin Talal á m.a. hluti í útgáfusamsteypunni News Corp og Savoy-hótelinu.

Í breska dagblaðinu Guardian segir að bin Talal saki sérfræðinga Forbes um að nota meingallaða aðferð við mat á auðssöfnun einstaklinga. Það hafi valdið því að sérfræðingarnir hafi vanmetið veldi bin Talal, hann sé í raun 9,6 milljörðum meiri en gefið sé upp á lista Forbes . Væri það raunin næði auðkýfingurinn á lista yfir tíu ríkustu menn og konur í heimi. Hann hefur skrifað ritstjóra Forbes bréf og segist hann ætla að hætta að senda tímaritinu upplýsingar um fjármál sín. Öðru máli gegnir um milljarðamæringalista Bloomberg , sem arabíski auðkýfingurinn er hæstánægður með. Þar er nefnilega miðað við útreikninga hans. Alwaleed bin Talal er þar í 16. sæti yfir ríkustu menn heims og auður hans metinn á 28 milljarða dala.

Í listanum eru góðkunningjar Forbes síðustu árin. Mexíkóski milljarðamæringurinn Carlos Slim Helu er í fyrsta sætinu. Þar á eftir kemur Bill Gates. Armando Ortega, eigandi verslanakeðjunnar Zöru, er þriðji ríkasti maður heim og vermir Warren Buffett fjórða sætið. Væri auður bin Talal metinn með þeim hætti sem hann kýs myndi hann lenda í tíunda sæti listans.