„Grikkir munu aldrei ganga úr Myntbandalagi Evrópu (EMU) og þeir munu gera allt til þess að vinna bug á þeirri efnahagskreppu sem nú ríkir í landinu.“ Þetta segir Jens Henriksson, nýskipaður forstjóri kauphallarinnar í Stokkhólmi, sem áður var hátt settur hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum og tók að sögn sænska viðskiptavefjarins di.se þátt í starfi sjóðsins hér á landi í kjölfar hrunsins.

Henriksson, sem þótti líklegur til þess að taka sæti í ríkisstjórn vinstri manna í Svíþjóð hefðu þeir unnið kosningarnar í fyrrahaust, segir í samtali við di.se að það myndi ekki á nokkurn hátt leysa vanda Grikkja að ganga úr EMU. „Það kemur mér á óvart hversu mikill pólitískur vilji er til þess að leysa vandann,“ segir hann og telur líklegt að beita þurfi bæði svipu og gulrót til þess að koma Grikkjum áfram.