„Það er ekki eftir neinu að bíða. Ef samningar nást ekki þá getur aðeins Alþingi lokið þessu. En það er í höndum Alþingis,“ segir Birgir Jakobsson landlæknir í samtali við Morgunblaðið um það ástand sem skapast í heilbrigðiskerfinu við verkfall hjúkrunarfræðinga, en aðgerðir þeirra hófust á miðnætti.

Birgir segir að staðan sé orðin nánast óþolandi. Uppsafnaður vandi í heilbrigðiskerfinu eftir langvarandi verkföll væri nú þegar orðinn mjög alvarlegur. Bættist verkfall hjúkrunarfræðinga ofan á yrði ástandið þannig að nógu sterk orð skorti til að lýsa því.

„Ég veit að hjúkrunarfræðingar eru í erfiðri stöðu. Þetta er ekki skemmtileg staða fyrir þá. Þeir gera sjálfsagt allt sem í þeirra valdi stendur, en það er alveg augljóst mál að það verður ekki hægt að tryggja heilbrigðisþjónustu sem þykir boðleg í dag ef af verkfalli hjúkrunarfræðinga verður,“ segir hann.