„Þótt ótrúlegt megi virðast hafa 270 milljónir árlega til Landmælinga Íslands aldrei skilað eiginlegum landmælingum, hvað þá heilum kortagrunni! Raunar minnir „fyrirmyndarstofnunin“ Landmælingar Íslands óneitanlega á spítalann í „Já ráðherra“-þáttunum sem var fullmannaður en hafði enga sjúklinga svo reksturinn færi ekki fram úr áætlunum.“

Þetta skrifar Arnar Sigurðsson fjárfestir í grein sem ber yfirskriftinga „Sama hvað þú kýst, ríkið vinnur alltaf“ og birtist í Morgunblaðinu í dag. Þar fjallar hann um nýtt frumvarp sem liggur fyrir Alþingi um breytingu á lögum um landmælingar og grunnkortagerð sem víkka mun til muna þann ramma sem Landmælingum Íslands er markaður í lögunum.

Úrelt herkort leyst af hólmi

Arnar útskýrir: „Forsaga málsins er sú að einu kortagrunnar stofnunarinnar, sem annarsvegar voru unnir af danska herforingjaráðinu og svo bandaríska hernum, reyndust úreldir þegar einkaaðilar hófu að kortleggja landið frá fjalli til fjöru landshorna á milli. Þannig er nú til háupplausnar kortagrunnur af öllu landinu sem notaður er til allra verklegra framkvæmda, leitar- og björgunarstarfa, skipulagsvinnu og í leiðsögukerfi. Semsagt: búið er að leysa af hólmi úrelt herkort.“

Segir hann að með nýja stjórnarfrumvarpinu sé lagt til að ráðist verði í gerð nýs kortagrunns til þess að stofnunin geti fótað sig í samkeppni við einkaaðila.

„Öllum má vera ljóst að ef aukning hefur orðið í notkun á landupplýsingum eru það einmitt rök fyrir því að hið opinbera dragi sig út af viðkomandi markaði,“ segir Arnar í greininni.

Kostar skattgreiðendur ekkert

Þá segir Arnar að eftir vandlega yfirferð í fjármálaráðuneytinu hafi þar hýstir embættismenn komist að þeirri niðurstöðu að gerð hins nýja kortagrunns sem síðan eigi að vera endurgjaldslaus muni ekki kosta skattgreiðendur neitt.

„Stofnun sem í dag fær 270 milljónir af almannafé án nokkurs sýnilegs afraksturs mun sem sagt hér eftir skila af sér nýjum háupplausnar-kortagrunni án nokkurs kostnaðarauka,“ segir hann.

Stofnanir koma en fara ekki

„Eini mælanlegi afrakstur Landmælinga Íslands er að stofnuninni tókst að flytja út á land, nánar tiltekið upp á Akranes. Þar með er girt fyrir þann möguleika að skala stofnunina niður eða afleggja hana með öllu eins og réttast væri. Forstjórinn reyndar orðaði það svo smekklega að „ekki væri hægt að treysta á einkageirann því einkafyrirtæki kæmu og færu“. Stofnanir koma bara,“ segir Arnar að lokum.