Fyrrverandi ritstjóri og blaðamenn danska slúðurblaðsins Se og Hør eru grunaðir um að kaupa greiðslukortaupplýsingar um nafngreint fólk og njósna þannig um það.

Vibeke Borborg aðjúnkt í fjölmiðlafræði við Háskólann í Kaupmannahöfn segir að þetta mál sé að vissu leyti alvarlegra en News of the World hneykslið sem kom upp fyrir fáeinum árum í Bretlandi.

Hún segir að á meðan News of the World hafi snúist um stolnar upplýsingar á skilaboðum á símsvörum snúist Se og Hør málið um stolnar greiðslukortaupplýsingar. Það séu sérstaklega viðkvæmar persónuupplýsingar sem eigi að fara varlega með.

Eins og kunnugt er var News of the World lagt niður þegar upp komst um hlerunarhneykslið árið 2011.