*

laugardagur, 31. júlí 2021
Innlent 1. nóvember 2013 11:00

Segir smálánafyrirtæki sniðganga ný lög um neytendalán

Helgi Hjörvar segir smálánafyrirtæki okra á fólki og vill setja þeim frekari skorður.

Ritstjórn
Haraldur Guðjónsson

Smálánafyrirtækin okra á almenningi og sniðganga ný lög um neytendalán sem taka gildi í dag með upptöku sérstaks gjalds fyrir flýtiþjónustu, að sögn Helga Hjörvars, þingmanns Samfylkingarinnar. Hann gerði lögin að umtalsefni í umræðum um störf þingsins við upphaf þingfundar á Alþingi í dag og sagði flýtigjaldið jafngilda nokkuð hundruð prósenta vöxtum á smálánin.

Samkvæmt nýju lögunum sem auglýst eru í dagblöðum í dag segir að með gildistöku þeirra fái lántakar upplýsingar um þróun verðlags og ráðstöfunartekna síðustu 10 árin og dæmi um breytingar á greiðslubyrði lána. Þá þurfa lánafyrirtæki að setja fram árlega hlutfallstölu kostnaðar til að auðvelda lántaka samanburð á mismunandi lánstilboðum. Ekki er hægt að krefjast hærri uppgreiðslugjalds en 1% af þeirri fjárhæð sem greidd er.

Helgi sagði m.a. að með lögunum hafi verið reynt að setja skorður við því sem hann kallaði okurlánastarfsemi smálánafyrirtækjanna og því óþolandi að þau leggi á sérstakt flýtigjald til að sniðganga lögin.

Hann mælti fyrir því að smálánafyrirtækjunum verði settar frekari skorður, s.s. að skoðað verði hvort lágmarkstími þurfi að líða frá því lán eru samþykkt og þar til þau eru veitt.