Vigdís Hauksdóttir segist ekki skilja aðferðir Sigurðar Inga Jóhannssonar, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, við flutning Fiskistofu. Hún segir að með því að greiða fólki fyrir að flytja sé verið að skapa slæmt fordæmi, að því er fram kemur á vef RÚV.

Sigurður Ingi hefur lagt til að þeir starfsmenn Fiskistofu, sem ákveði að flytja með stofnuninni til Akureyrar, fái þriggja milljóna króna styrk frá ríkinu.

Að sögn Vigdísar er þessi tilhögun ráðherra brot á jafnræðisreglu. Ekki sé eðlilegt að starfsmenn einnar stofnunar fái ívilnun fyrir að flytja milli landshluta. Hún bætir jafnframt við að slík aðgerð yrði fordæmisgefandi.