Misræmi er milli ummæla stjórnarformanns Vaðlaheiðarganga í Viðskiptablaðinu í maí síðastliðnum og upplýsinga frá fjármála- og efnahagsráðuneytinu og Ríkisábyrgðasjóði sem greint er frá í nýrri skýrslu Ríkisendurskoðunar. Stjórnarformaðurinn sagði ríkið hafa veitt vilyrði um viðbótarfjármögnun til ganganna, en ráðuneytið kannast ekki við slíkt.

Í skýrslu Ríkisendurskoðunar um ríkisábyrgðir og endurlán ríkissjóðs er vísað til umfjöllunar Viðskiptablaðsins um Vaðlaheiðargöng frá því í maí. Þar var haft eftir Valgeiri Bergmann, framkvæmdastjóra Vaðlaheiðarganga, að allt stefndi í það að framkvæmdin yrði á endanum kostnaðarsamari en reiknað var með.

Pétur Þór Jónasson, stjórnarformaður Vaðlaheiðarganga, sagði að félagið hafi fengi vilyrði frá ríkissjóði um viðbótarfjármagn. „Það hefur verið viðmið í viðræðunum að menn þyrftu alltaf að hafa þennan möguleika opinn,“ sagði Pétur.

Vinnunni er ólokið

Í skýrslu Ríkisendurskoðunar segir hins vegar að hvorki fulltrúar fjármála- og efnahagsráðuneytis né fulltrúar Ríkisábyrgðarsjóðs hafi kannast við vilyrði um viðbótarfjármögnun til Vaðlaheiðarganga. Í svari ráðuneytisins til Ríkisendurskoðunar segir að til þess þyrfti sérstaka lagaheimild, en eins og Viðskiptablaðið greindi frá í maí kveða lög um lán til Vaðlaheiðarganga aðeins á um 8,7 milljarða króna lán.

Í svari ráðuneytisins segir að það hafi ekki gert áætlun um hvernig brugðist verður við ef kostnaður við framkvæmdina fer fram úr áætlun eins og flest bendir til. Ráðuneytið hefur þó fundað með forsvarsmönnum Vaðlaheiðarganga um málið, og framundan er vinna við að greina hvernig félagið getur dregið úr kostnaði. Þeirri vinnu er ólokið samkvæmt skýrslu Ríkisendurskoðunar.