*

þriðjudagur, 3. ágúst 2021
Innlent 14. maí 2013 14:40

Segja hækkun neysluverðs vísitölu út úr korti

Hagfræðideild Landsbankans gagnrýnir forsendur Hagstofunnar um hækkun fasteignaverðs á landsbyggðinni.

Ritstjórn
Aðsend mynd

Hækkun neysluverðsvísitölu í apríl kom nokkuð á óvart og ekki síður skýringin sem gefin var fyrir hækkuninni, að mati Hagfræðideildar Landsbankans. Skýringin var sögð vera 8,6% hækkun fasteignaverðs á landsbyggðinni milli mars og apríl. Í Hagsjá Hagfræðideildarinnar segir að fasteignaverð á landsbyggðinni sé ekki sérstaklega skilgreint og sé ekki að finna neins staðar í hagtölum. Skjóti því nokkuð skökku við að mikilvæga skýringu á hækkun verðbólgunnar sé að finna í svörtum kassa sem fáir þekkja og spurning sé hvort eðlilegt sé að niðurstöðu einnar mælingar sé hleypt út í verðlag þegar vitað sé að sveiflur í fasteignaverði á landsbyggðinni eru mjög miklar.

Í Hagsjánni er reynt að slá á það hvernig fasteignaverð á landsbyggðinni hefur þróast frá hruni. Það gerir hún með því að nota ársfjórðungstölur frá Þjóðskrá fyrir átta bæjarfélög utan höfuðborgarsvæðisins og búa til nokkurs konar landsbyggðarvísitölu. Þegar hún er borin saman við vísitölu fasteignaverðs á höfuðborgarsvæðinu kemur fram að sveiflur á landsbyggðinni eru mun meiri, enda um mun minni viðskipti að ræða og þar með ónákvæmari gögn. „Myndin sýnir hins vegar skýrt að fasteignaverð lækkaði ekki eins mikið á landsbyggðinni og gerðist á höfuðborgarsvæðinu. Þarna munar u.þ.b. sjö prósentum sé litið á meðaltal alls tímabilsins. Fasteignaverð á höfuðborgarsvæðinu er nú svipað og það var á 3. ársfjórðungi 2008, en það er rúmlega 4% hærra í þessum átta bæjum. Þá vekur einnig athygli að verðið á landsbyggðinni virðist hafa lækkað töluvert á tveimur síðustu ársfjórðungum, en þó má benda á að allra nýjustu tölur þurfa ekki að vera endanlegar.“

Þá segir í Hagsjá Landsbankans að það veki athygli að þessar tölu styðji ekki niðurstöðu Hagstofunnar um að fasteignaverð á landsbyggðinni hafi hækkað mikið að undanförnu. Reyndar byggi hún á ársfjórðungsgögnum, en Hagstofan á mánaðargögnum, en tölurnar sýni engu að sýnur að það sé orðið tímabært að opinberir aðilar birti nákvæmari gögn um fasteignaverð eftir landshlutum.

„Reyndar er ekki annað að sjá en að undirvísitala markaðsverðs húsnæðis sem notuð er í vísitölu neysluverðs sýni nokkuð svipaða niðurstöðu fyrir landsbyggðina og kom fram hér að framan. Hækkun neysluvöruvísitölu í apríl vegna fasteignaverðs úti á landi virðist því vera dálítið úr korti.“