Ársverk ríkisstarfsmanna voru mun færri í kjölfar efnahagshrunin en Hagfræðistofnun telur fram í skýrslu sinni um breytingar á fjölda ríkisstarfsmanna í kjölfar efnahagshrunsins. Fjármála- og efnahagsráðuneytið hefur tekið saman athugasemdir um skýrsluna enda telur það margvíslegar skekkjur þar að finna.

M.a. er bent á að í launabókhaldi ríkisins hafi ársverkum á tímabilinu 2007-2011 fjölgað um 120, þegar tekið hafi verið tillit til allra tilfærslna, en ekki 198 eins og fram komi í skýrslu Hagfræðistofnunar. Þá bendir ráðuneytið á að árið 2011 hafi mátt rekja 292 ársverk til ákvarðana stjórnvalda um að setja á fót nýjar stofnanir og styrkja aðrar sem fyrir voru í kjölfar efnahagshrunsins. Þar má nefna embætti Sérstaks saksóknara með 70 ársverk, Umboðsmann skuldara með 70 ársverk, Fjármálaeftirlitið með 60 ársverk og Vinnumálastofnun með 55 ársverk.

Í tilkynningu frá ráðuneytinu segir að í athugasemdum fjármála- og efnahagsráðuneytisins segi m.a. að vegna skekkja í tölulegum upplýsingum í skýrslunni sé ekki unnt að draga af þeim ályktanir um umfang og dreifingu samdráttar í fjárveitingum undanfarinna ára eins og gert hafi verið í opinberri umræðu undanfarið. Þá er bent á að mat á breytingum á fjölda ríkistarfsmanna á tímabilinu 2007-2011 sé vandasamt því miklar breytingar hafi verið gerðar á starfsemi ríkisins. M.a. þurfi að hafa í huga að um 1.500 ársverk hafi færst til vegna flutnings verkefna frá ríki til sveitarfélega og hlutafélaga. Þá hafi verkefnum verið útvistað, sem dæmi hafi um hundrað ársverk færst frá Landspítala af þeim sökum.