Í ítar­legri út­tekt Copen­hagen Economics á hag­fræði­legum á­hrifum samninga sem Eim­skip og Sam­skip gerðu sín á milli t.d. um neyðarflutninga á meintu sam­ráðs­tíma­bili Sam­keppnis­eftir­litsins er komist að þeirri niður­stöðu að á­hrif þess á neyt­endur og við­skipta­vini skipa­fé­laganna hafi í raun verið engin.

Í á­litinu, sem danska greiningar­fyrir­tækið skilaði af sér í byrjun febrúar, er komist að af­dráttar­lausri niður­stöðu um að við­skiptin milli skipa­fé­laganna, sem voru afar lítill hluti af skipa­flutningum á Ís­landi í heild, gætu ekki talist hafa haft það mark­mið að raska sam­keppni eða haft nei­kvæð á­hrif á sam­keppni í reynd.

Greiningar­fyrir­tækið gengur enn lengra og segir Sam­keppnis­eftir­litið á Ís­landi ekki hafa fylgt dóma­fram­kvæmd Evrópu­dóm­stólsins sem og leið­beininga­reglum fram­kvæmda­stjórnar Evrópu­sam­bandsins (sem sinnir sam­keppnis­eftir­liti innan ESB) með því að gera sjálf­stæða greiningu á því hvort samningar sam­keppnis­aðila hafi skaðað sam­keppni.

Bendir ráðgjafarfyrirtækið á að samningar milli samkeppnisaðila séu ekki sjálf­krafa brot á sam­keppnis­lögum.

Um er að ræða einn anga hins meinta sam­ráðs Eim­skips og Sam­skipa á árunum 2008 til 2013 en skipa­fé­lögin hafa sem dæmi verið með samning um neyðar­flutninga sín á milli frá árinu 2001.

Að mati Copen­hagen Economics nær Sam­keppnis­eftir­litið ekki að sýna fram á nei­kvæð á­hrif á sam­keppni af völdum þessara samninga. Þvert á móti hafi þeir komið í veg fyrir ó­þarfa kostnað og átt þátt í að halda verði niðri.

Út­tekt danska greiningar­fyrir­tækisins, sem er lögð fram meðal dóm­skjala í stefnu Sam­skipa gegn Eim­skipi þar sem fyrr­nefnda fé­lagið sakar hið síðar­nefnda um rangar sakar­giftir er það gerði sátt við eftir­litið, tekur á við­skiptum skipa­fé­laganna í neyðar- og innan­lands­flutningum t.d. Ís­lensku skipa­fé­lögin hafa í ára­tugi verið með sam­komu­lag sín á milli um neyðar­flutninga en um er að ræða samninga til að draga úr ó­hag­ræði og til að koma til móts við þarfir við­skipta­vina til að flytja vörur þegar mikið liggur á.

Að­stæður þar sem reynir á slíka flutninga eru t.d. þegar stórir ó­við­ráðan­legir at­burðir (e. force majeure) koma upp eða þegar ill­við­ráðan­legir at­burðir (e. frustration) koma upp. Flutnings­aðilum ber við þær að­stæður að leita allra leiða til að upp­fylla samninga og koma í veg fyrir tjón.

Hagfræðingurinn Dr. Henrik Ballebye Okholm er aðalhöfundur skýrslu CE.
Hagfræðingurinn Dr. Henrik Ballebye Okholm er aðalhöfundur skýrslu CE.

Í sátt Eim­skips við Sam­keppnis­eftir­litið árið 2021 viður­kenndi Eim­skip að fé­lögin hefðu átt í víð­tæku sam­ráði um sjó­flutninga, verð og skiptingu á mörkuðum og segir Eim­skip að neyðar­samningarnir hafi verið hluti af því sam­ráði.

Sam­þykkti Eim­skip, sem hefur markaðs­ráðandi stöðu í skipa­flutningum á Ís­landi, að greiða 1,5 milljarða í stjórn­valds­sekt og ljúka þar með málinu. Sam­keppnis­eftir­litið lagði síðan í fyrra 4,2 milljarða króna stjórn­valds­sekt á Sam­skip en um er að ræða hæstu stjórn­valds­sekt eftir­litsins en upp­hæðin er hærri en eigið fé sam­stæðunnar árið 2022.

Í á­kvörðun Sam­keppnis­eftir­litsins gegn Sam­skipum er komist að þeirri niður­stöðu að Sam­skip hafi brotið 10. gr. sam­keppnis­laga um bann við samningum sem raska sam­keppni sem og sam­bæri­legu á­kvæði EES-samningsins.

Hér ber að hafa í huga að greinar­munur er gerður á samningum sem hafa það mark­mið að raska sam­keppni og þeim sem hafa það í för með sér. Í dóma­fram­kvæmd í Evrópu er lagt til grund­vallar að til þess að samningar teljist hafa það að mark­miði að raska sam­keppni þurfi þeir í eðli sínu að fela í sér nægi­legan sam­keppnis­skaða.

Af þeim sökum óskuðu Sam­skip eftir á­litum ó­háðra sér­fræðinga á borð við Copen­hagen Economics, Reykja­vík Economics og Intellecon til að sýna fram á að játningar Eim­skips í sátt skipa­fé­lagsins við Sam­keppnis­eftir­litið hafi í reynd verið rangar þar sem við­skiptin í tengslum við t. d. neyðar­flutninga hafi ekki haft það að mark­miði að raska sam­keppni auk þess sem þau gátu engan veginn leitt til slíkrar röskunar.

Fréttin er hluti af lengri umfjöllun um greiningar Copenhagen Economics, Reykjavíks Economics og Intellecon á hagfræðilegum áhrifum meints samráðs skipafélaganna. Áskrifendur geta lesið umfjöllunina hér.